Færsluflokkur: Ratleikur

4 Beitarhús nærri Selgjá

Veggir af fornu beitarhúsi í landi Urriðakots sem hlaðið var til skjóls fyrir útigangsfé og senni­lega smalann líka. Ekki er vitað um aldur hússins sem er ekki lengur reft og standa veggirnir einir eftir, ásamt sér­kennilegri hleðslu á milli hraunkletta með einskonar glugga sem snýr  í austurátt.

5 Hleðsla við Selgjárhelli

Norðurhellar eru í Selgjá (Norður­hellagjá) sem er beint framhald Búrfellsgjár. Hellarnir voru nýtt­ir í tengslum við selbúskap 8 kóngsjarða á Álftanesi. Talið er að selin hafi verið 11 talsins og eru tóftir nokkurra mjög greinilegar við gjárbarmana, en minna ber á öðrum seltóftum.

6 Vatnsendaborg

Fjárborg Vatnsendabænda stendur hátt á Hjallabrúnum skammt frá landamerkjarvörðu á Arnarbæli (Arnarsetri) sem skipti löndum milli Vífilsstaða og Vatnsenda. Borgin er rétt innan við landamerki Vatnsendalands og var helsta skjól  sauðanna sem voru þar á vetrarbeit

7 Gjáarrétt í Búrfellsgjá

Gjáarrétt var fjallskilarétt Álftnesinga og bendir margt til að hún hafi verið stærri áður fyrr. Al­menn­ingurinn er óvenju lítill, en þessi rétt var hlaðin árið 1839 og hætt að nota hana 1920 þegar Hraunrétt í Gráhelluhrauni varð lögrétt. Gjáarrétt var friðlýst 1964.

8 Fallin fjárborg á Selhöfða

Selhöfði ber nafn með rentu því nokkur sel voru norðan og vestan við hann. Ofarlega á höfðanum er tölu­verð grjóthrúga; leifar hruninnar fjárborgar. Grjótið lætur ekki mikið yfir sér þar sem það liggur á víð og dreif en auðvelt er að ímynda sér hversu stór fjárborgin var. 

9 Húsatóft við Fremstahöfða

Rétt austan við Fremstahöfða eru vegghleðslur fjárhúss sem byrjað var að reisa úr hraun­grjóti rétt eftir aldamótin 1900 en var aldrei klárað að því er næst verður komist. Húsatóftin minnir á það hversu mikið menn voru tilbúnir að leggja á sig til að skýla sauðfé sínu fyrir vertrarveðrum.

10 Fallin fjárborg á Borgarstandi

Vestur af Borgarstandi er beitarhúsatóft með gerði en suðvestan Smalaskála eru nokkrir fjárhellar með tilheyrandi hleðslum. Tvær fjárborgir stóðu á Borgarstandi en grjótið úr eystri borginni var fjarlægt á sínum tíma. Vestari borgin er hrunin og eru minjar hennar friðlýstar.

11 Vatnsveituhleðsla í Lambagjá

Veturinn 1917-18 voru hlaðnar undirstöður fyrir 1.600 m opna trérennu  sem lá frá Kaldárbotnum að Sléttuhlíð, þar sem vatn var látið renna niður í hraunið. Öll hleðslan milli Lambagjár og Kaldárhnúka er friðuð og ekki má raska þessu mannvirki á neinn hátt. 

12 Fallinn stekkur í Helgadal

Hellarnir í Helgadal voru fyrrum notaðir sem fjárskjól og eru fornar hleðslur í nokkrum þeirra. Skammt suður frá hellunum eru tóftir beitarhúss sem var líkast til sel í eina tíð. Helgadalsstekkur sést á lágri hraunklöpp rétt norðan hellanna, en hann er löngu fallinn.  

13 Túngarðurinn vestan við Óttarsstaði

Heimatúnið á Óttarsstaðabæjunum tveimur var girt tvístæðum túngarði sem hlaðinn var úr hraungrjóti að vestan en sjávargrjóti að austan. Þessi vandaði garður var feiknarmikið mannvirki og þurfti talsvert viðhald. Hann stendur að hluta enn þó víða hafi hrunið úr honum.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband