Færsluflokkur: Göngugarpur

11 Efri-hellar (-hellrar) - fjárhellar

Efri-Hellar (hellrar) voru fjárskjól frá Þorbjarnarstöðum. Önnur nálæg fjárskjól (í norðvestur og nær bænum) voru Neðri-Hellar (hellrar). Efri-Hellar eru skammt vestan hraunjarðar Brunans (Kapelluhrauns), í annars grónu Hrútagjárdyngjuhrauninu. Skammt suðaustar eru áberandi hraunstandar í jaðrinum, annar meira áberandi en hinn.
Hann var fyrrum nefndur „Hellan“ eða „Gráhella“. Suðvestan við Efri-Hella er áberandi varða við svonefndan Rauðshelli (skjól). Vestan við fjárhellinn eru Selhraunin þrjú, sem heimamenn nefndu gjarnan einu nafni Gráhelluhraun.

12 Kolbeinshæðaskjól ofan Þorbjarnarstaða

Í suðvestur frá Efri-hellrum, uppi á hrauninu er hraunhæð, nefnd Kolbeinshæð (stundum nefnd Kolbeinshæðir), og er vel gróið kringum hana. Sunnan í henni er vestanvert Kolbeinshæðarskjól, en austanvert er Kolbeinshæðarhellir. Uppi á hæðinni er Kolbeinshæðarvarða. Kolbeinshæðarstígur liggur hér um skarð í hæðinni suður og upp hraunið, og er þá komið að stórri, ferhyrndri laut þarna í hrauninu. Gísli Sigurðsson, örnefnasafnari, segir, að hún sé kölluð Kvíin.

13 Hrauntunguhellir

Hrauntunguhellir er annar tveggja hella í Hrauntungum. Þær nefnast svo vegna tveggja hrauntungna inn á Hrútagjárdyngjuhraunið til vesturs út frá hinu mikla Brunahrauni (Kapelluhrauni). Inni í Tungunum norðanverðum er fyrirhleðsla fyrir skúta sunnan í aflöngum hraunhól. Erfitt er að koma auga á hlaðið opið vegna þess að birkihríslur hylja það að mestu. Áberandi varða er þó á hólnum ofan við opið. Skjól þetta var smalaskjól.
Syðst í Hrauntungunum er einnig Hellishóll. Í honum er fjárskjól með fyrirhleðslu; Hellishólshellir og Hellishólsskjól.

14 Sjónarhólshellir (Óttarsstaðafjárhellir)

Landamerki Lónakots og Óttarsstaða liggur frá sjó suðsuðaustur í Sjónarhól. Á honum er Sjónarhólsvarða, en suður frá honum er Sjónarhólshellir, fjárhellir stór inni í krika. Hann var áður yfirreftur, en nú er það dottið mikið niður. Skammt austur af Sjónarhól er stór hæð, sem er kölluð Vatnsstæðishæð. Rétt norður af Sjónarhól eru tvær háar vörður, er hétu Ingveldur og stóðu á Ingveldarhæð. Ekki er vitað, hvernig á Ingveldarnafninu stendur.

15 Sigurðarskúti í Sigurðarhæð

Sigurðarskúti er í Sigurðarhæð milli Óttarsstaða og Straums; Óttarsstaðamegin við mörkin. Í örnefnalýsingu segir; „Fyrir austan túnið á Óttarsstöðum er Kotabót, og við bótina austanverða heitir Kothella. Upp af bótinni er svo Sigurðarhellir, og upp af honum er á götunni svonefnt Eystraklif. Heldur vestan Eystraklifs er annað klif, sem heitir Kúaklif. Vestan þess er Miðmundahæð.
Þarna var Glaumbær, sumarbústaður og seinna barnaheimili um tíma (nú brunnið til grunna). Suður af þessu er klapparhæð, er nefnist Sigurðarhæð. Vestan í henni er hellisskúti, sem Sigurðarhellir heitir. Hleðsla er við skútann (sem hefur verið reftur) og á einhver Sigurður að hafa haldið þar til í gamla daga, enda var alvanalegt, að flökkukarlar hefðust við í þessum hellum.“ Sunnan við fyrirhleðsluna má sjá leifar af ferhyrndu gerði og jafnvel öðrum mannvistarleifum í nágrenninu.

16 Grændalaskúti (-hellir) / (Loftsskúti)

Grændalir (Grendalir) eru austur af Virkishólum (ofan Reykjanesbrautar sunnan bílastæðisins við gatnamótin að Hvassahrauni. Á einum hraunhólnum er varða, sem heitir Grændalavarða og við þennan hól sunnanverðan, í jarðfalli, er fjárskjól með hleðslum sem heitir Grændalahellir eða Loftsskúti og snýr op þess í suðurátt. Þetta var fjárskjól frá Hvassahraunsbæjunum.

17 Brennisel, fjárskjól

Í Brenniselshæðum eru tveir fjárskútar í kvos, kallaðir Brenniselshellar. Annar er með mikla fyrirhleðslu og var yfirreftur. Hinn er litlu norðaustar og er hlaðið við opið. Í kvosinni eru hríslur. Undir henni er tóft; Brennisel. Hérna virðist og hafa verið aðstaða til kolagerðar. Slík aðstaða hlýtur að hafa verið víða frá Hraunbæjunum því mikil hrístekja og skógarhögg átti sér stað í grónum hraununum og uppi í Almenningi. Þar, í Straumsseli, var sérstakur skógarvörður við störf, að konungsskipan, á árunum 1874-1894.

18 Álfakirkja - fjárhellir í Óttastaðalandi

Álfakirkja er örnefni á stökum áberandi klofningskletti sunnan Brennisels í Óttarsstaðalandi. Það var trú staðkunnugra að í klettinum væri kirkja álfanna á svæðinu. Í honum miðjum má sjá sjálfstandi steinaltari. Bændur á Óttarsstöðum nýttu sér rúmlegan skúta norðan í klettinum sem fjárskjól, eitt af mörgum í upplandinu, fyrir tíma sérstaklega byggðra fjárhúsa um og eftir 1900. Hleðslur eru við innganginn að fjárskjólinu og inni er ágætt skjól fyrir u.þ.b. 30 kindur.

10. Kringlóttagjá

Kringlóttagjá er fornt hrauntjarnarstæði og líkist Gjánum enda varð hún til í sömu goshrynu. Barmarnir eru 5-10 metra háir og mynda óreglulega skál sem er um 200-300 metrar að ummáli með klettadranga á stangli. Glóandi kvikan rann neðanjarðar frá hrauntjörninni áður en botninn storknaði og myndaði skálina.

11. Valahnúkar

Valahnúkar urðu til við gos undir jökli á síðustu ísöld líkt og Helgafell, Húsfell og Víghóll sem eru í næsta nágrenni. Austarlega á móbergshryggnum standa þrjár strýtur sem líkjast steinrunnum tröllum eða jafnvel ránfuglum. Talið er að nafnið Valahnúkar sé beinlínis tengt lögun þessara kynjamynda.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband