Færsluflokkur: Göngugarpur

10 Stórhöfði

Vel má sjá hversu landið hefur blásið burt, en Skógrækt Hafnarfjarðar hefur plantað talsverðu af trjám með vegslóðanum inn dalinn. Úr Stórhöfða kom Stórhöfðahraun vestan og sunnan við höfðann. Stórhöfði er léttur uppgöngu, alveg upp á hæstu bungu (128 m.y.s.). Misgengi gengur í gegnum höfðann með stefnu að Hjallamisgenginu í gegnum Smyrlabúð.

11 Húsfell

Húsfell stendur í mörkum Húsfellsbruna, Rjúpnadyngnahrauns og Helgadalshrauns. Mygludalir eru vestan Húsfell og austan þeirra blasir Víghóll við. Bæði þessi nöfn Víghóll og Mygludalir eru einkennileg en ekki er vitað um uppruna þeirra. Munnmæli herma að hryssa Ingólfs Arnarsonar sem Mygla hét hafi haldið sig í Mygludal, en líklegri skýring á nafninu tengist einkennilegu náttúrufyrirbæri sem myndast í hringjum og dælum og minnir á mygluskán. Farið er yfir Húsfellsgjá sunnan hólsins á leiðinni að Húsfelli og síðan getur hver og einn valið sér uppgönguleið eftir getu. Húsfell er 288 m.y.s. eða um 50 m lægra en Helgafell. Engu að síður er víðsýnt af toppi fjallsins í góðu skyggni.

12 Helgafell

Helgafell er 338 metra hár móbergsstapi. Venjulega tekur gangan um einn til einn og hálfan klukkutíma. Fjallið myndaðist, líkt og Húsfell, við gos undir jökli seint á ísöld. Efst uppi á fjallinu er varða, sem er í raun berggangur sem grjóti hefur verið hlaðið í kringum. Í suðaustri er klettadrangur í fjallinu, sem heitir Riddari. Þaðan eru færar gönguleiðir niður af fjallinu; önnur liggur í gegnum stóran steinboga og hin er stikuð til vesturs. Nafn fjallsins kann að vera komið til vegna einhvers konar helgi á fjallinu til forna. Fjallið er tiltölulega auðvelt uppgöngu. Útsýnið af toppnum er gott, þó að fjallið sé ekki mjög hátt. Þaðan sést vel yfir höfuðborgarsvæðið og vestanverðan Reykjanesskaga.

13 Valahnúkar

Valahnúkar eru taldir hafa myndast í gosi fyrir um 120 þúsund árum. Nafngiftin er ekki á hreinu en gæti verið komin af nafni Fálka sem eru stundum kallaðir valir. Eins gæti nafnið komið af ávalir og þá vísað til hnjúkanna á toppi fjallsins, víð og dreif. Aðrir vilja þó meina að hnjúkarnir séu steinrunnin tröll og er það mun betri skýring.

14 Gvendarsel

Gömul gata liggur frá Kaldárseli um Kúadal og Kýrskarð, upp með norðanverðri Gvendarselshæð og áfram til suðurs með henni austanverðri, um Slysadal, Leirdal og Fagradal. Selið er vestan í hæðinni, undir háum klettavegg þar sem hann er hæstur. Klettur slútir þar fram og myndar þak á eina tóftina. Önnur tóft er skammt ofar undir veggnum. Á bak við og inn á milli er skarð í klettana og er hleðsla í enda þess. Norðvestan við selið er hlaðinn stekkur að hluta.

15 Fjallið eina

Fjallið eina er stapi norðan undir Hrútagjárdyngju (223 m.y.s.). Það hefur myndast í gosi undir jökli, en af stapakollinum að dæma virðist sem jarðeldurinn hafi náð upp úr íshellunni í lok gossins. Fjallið er dæmigerð slík gosmyndun. Auðvelt er að ganga á það að norðanverðu.


16 Fremsti-höfði

Fremsti-höfði hefur einnig verið nefndur Efsti-höfði (103 m.y.s.). Hann er einn nokkurra höfða í Höfðalandi. Efst á honum, ofan við kjarri vaxnar hlíðar, er hlaðin varða.

17 Fjárhústóft

Austan undir Fremstahöfða er hálfhlaðið fjárhús, líklega frá Kaldárseli. Er eins og hætt hafi verið við húsagerðina í miðjum klíðum. Handbragðið er ekki ólíkt því að þarna hafi Kristmundur Þorláksson, kenndur við Stakkavík og síðan Brunnastaði, verið að verki. Árin 1906-1908 fékk Kristmundur Kaldársel til afnota. Hann kom upp smáheyhlöðu í Kaldárseli fyrir sínar 50 kindur með því að byggja yfir hina gömlu baðstofutótt, sem þá stóð enn ófallinn. Þá byggði hann þar lambahús. Ekki hafði hann not af gömlu tóttunum að öðru leyti en því að hann gat nýtt úr þeim hraunhellurnar, sem hann gerði af miklum dugnaði. Kristmundur lá við í Hafnarfirði, en fór fótgangandi um veturinn beitarhúsaveginn í Kaldársel í myrkri kvölds og morgna. Ærnar hafði hann við gömlu hellana, sem eru skammt norður af Selinu. Lömbin voru í húsi, en músin vildi leggjast á þau. Kristmundur flutti loks fé sitt í Hvassahraun þar sem honum bauðst vist. Hann var því síðasti bóndinn í Kaldárseli.

18 Smyrlabúð

Smyrlabúð er nafn á bergkambi (125 m.y.s). Vestan við það var gamla lestamannaleiðin um Selvogsgötu (Suðurferðaveg) um aldir og allt fram undir 1940 á meðan henni var haldið við með ruðningi sem sýsluvegi. Hleðslur má sjá við hraunkantinn að baki Sléttuhlíðar, þar sem gatan liggur þrengst milli hans og hlíðarinnar. Ekki er ólíklegt að Selvogsbúar á leið sinni í Hafnarfjörð hafi staldrað þarna við, slegið upp tjöldum og dvalið yfir nótt til að komast árla í kaupstaðinn. Gerðið gæti hafa verið fyrir hesta eða fé.

10 Rauðshellir í Helgadal

Rauðshellir er vestasti hluti sömu rásar og Fosshellir og 100 m hellir í Helgadal. Hann dregur nafn sitt af lit þeim er einkennir hellinn. Fyrir munnanum eru hleðslur í grónu jarðfalli. Ummerki eru þar eftir selstöðu. Stekkurinn er skammt norðar. Hellir þessi hefur einnig verið nefndur Pólverjahellir. Það nafn er tilkomið vegna þess að fyrrum fóru börnin í Pólunum í Reykjavík í árlega ferð í Helgadal, þ.á.m. í hellinn. Önnur sögn er sú að áhöfn af pólsku skipi í Hafnarfjarðarhöfn hafi gist í hellinum eftir að hafa verið hafnað um gistingu í Hafnarfirði, en sú sögn mun ekki eiga við rök að styðjast.

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband