17. Litli-Rauðamelur

Rauðmalarhólar myndast þegar hraun renna út í stöðuvötn eða mýrlend – eða gos verður í sjó eða vatni. Nánast allir rauðhólar í nágrenni byggðarinnar eru nú horfnir því afrakstur þeirra hefur verið notaður í húsbyggingar og vegagerð. Á þessum stað voru Stóri- og Litli-Rauðamelur, en sá fyrrnefndi hvarf vegna námuvinnslu þegar sækja þurfti efni í vegi og húsgrunna. Eftir stendur óálitlegt djúpt ker með grunnvatni.

Jarðmyndunum á Reykjanesskaga má skipta í fjóra flokka eftir gerð og aldri: 1) Elstu jarðmyndanir á yfirborði skagans eru grágrýtishraun mynduð á hlýskeiðum ísaldar eða íslausum svæðum á jökulskeiðum, yngri en 780 þúsund ára. Elsta bergið á skaganum er raunar mun yngra, en það er talið um 500 þúsund ára gamalt. Grágrýtið er að mestu leyti myndað við dyngjugos og er einkum á þremur svæðum, þ.e. á Rosmhvalanesi og Vogaheiði, Krýsuvíkurheiði og svæðinu milli Lönguhlíðar og Undirhlíða. 2) Móberg myndað á jökulskeiðum ísaldar myndar nærri allt hálendi skagans og er eins og grágrýtið yngra en 780 þúsund ára. Mest er af því í Sveifluhálsi og sunnan Kleifarvatns, í Núpshlíðarhálsi, sunnarlega í Brennisteinsfjöllum og Lönguhlíð, Bláfjöllum og Fagradalsfjalli, en einnig standa stöku móbergsfell upp úr yngri hraunum vestar á nesinu, t.d. Þorbjarnarfell, Þórðarfell og Stapafell. Móbergið er að mestu myndað við gos undir jökli á jökulskeiðum, en móbergsfellin vestast og syðst gætu þó verið mynduð við gos í sjó. 3) Hraun frá lokum síðasta jökulskeiðs og nútíma þekja mestan hluta skagans. Þeim hefur verið skipt í þrjá flokka eftir gerð og aldri. Elstar eru frekar litlar dyngjur, en þær eru taldar 11.000-13.000 ára, þá eru stórar dyngjur, taldar 8.000-10.000 ára, og yngst eru sprunguhraun yngri en 8.000 ára og sprungureinagosin frá því fyrir ca. 3000 árum.

Litli-Rauðamelur, þótt lítill hafi verið, er nánast eina ummerkið eftir hina fornu „rauðameli“ á Reykjanesskaganum. Fyrirhugað er að leggja hluta hinnar nýju Reykjanesbrautar yfir hann.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband