Færsluflokkur: Þrautakóngur

21. Snjódalaás

Snjódalaás er sprunginn klapparás í um 1 km fjarlægð suður af Hvassahraunsseli, en þar eru jarðföll með nokkru kjarri og nefnist svæðið einu nafnið Snjódalir. Allt um kring eru víðáttumikil mosahraun og getur reynst erfitt að finna dalina ef komið er að þeim að ofanverðu.

22. Urðarás

Urðarás varð væntanlega til þegar neðanjarðar hraunrás stíflaðist og braut sér leið upp á yfirborðið vegna ógnarþrýstings. Þegar rásin tæmdist féll þakið niður í rásina og myndaði brothring með grjóturð. Oft eru stórir hellar tengdir slíkum jarðfræðifyrirbærum en á þessum slóðum hafa einungist fundist  smáhellar. 

23. Löngubrekkugjá

Löngubrekkugjá nefnist sprungubeltið suðaustarlega í Smalaskálahæð, sem er nánast samsíða Alfaraleiðinni milli Suðurnesja og Innnesja. Þessi sprunga er einnig þekkt sem Hrafnagjá enda má finna þar yfirgefna hrafnslaupa á klettasyllum. Skammt frá gjánni er Óttarsstaðafjárborg, sem var oftast kölluð Kristrúnarfjárborg.

24. Rauðamelstjörn

Rauðmalarhólar myndast þegar hraun renna út í stöðuvötn eða mýrlendi. Allir rauðhólar í nágrenni byggðarinnar eru horfnir því mölin var notuð í húsbyggingar og vegagerð. Á þessum stað voru Stóri- og Litli-Rauðamelur sem hurfu vegna námuvinnslu og eftir stendur djúpt ker með grunnvatni sem myndar tjörn.

25. Katlar

Katlar nefnast jarðföll eða gjótur sem eru í suðurjaðri Draughólshrauns, rétt norðan við Jónshöfða og Straumsselshöfða. Straumsselsgatan liggur þétt við Katlana þar sem hún liggur sniðhalt í áttina að Straumsselhöfða. Gróðursælt er í Kötlum og stingur umhverfið nokkuð í stúf við mosavaxið Draughólshraunið.

26. Hellan við Efrihella

Hellan var fyrrum kölluð Gráhella og er áberandi klettur í vesturbrún Kapelluhrauns. Skammt vestan drangsins eru Efrihellar í slétttu helluhrauni sem fræðimenn kalla Selhraun 3, en heimamenn nefndu Gráhelluhraun. Vera má að þetta sé vestasti hluti Búrfellshrauns sem hefur að mestu horfið undir yngri hraunfláka. 


27. Dulatjarnir

Dulatjarnir við Dulakletta eru spölkorn vestan við Réttarkletta.
Þar eru merkilegar ferskvatnstjarnir og gætir flóðs og fjöru í þeim sem er einkenni tjarna sömu gerðar í Hraunum. Grastó á einum klettinum nefndist Dula og var sérstakt fiskimið sem sjómenn treystu á er þeir voru á veiðum á Lónakotsdjúpi.   


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband