Færsluflokkur: Göngugarpur

12. Gvendarselsgígar

Gvendaselsgígar kallast hraungígar á stuttri gossprungu í bakhlíðum Undirhlíða milli Kaldárbotna og Gvendarselshæðar. Talið er að gosið hafi um miðja 12 öld. Hraunið rann annarsvegar á milli Helgafells og Undirhlíða og niður með Kaldá en hinsvegar í hraunfossi norður yfir Undirhlíðar þar sem þær liggja lægst.

13. Gullkistugjá

Löng sprungurein sem fer m.a. í gegnum suðausturhluta Helgafells og suður í Skúlatúnshraun. Sprungan liggur í NA/SV líkt og flestar gjár og sprungur á Reykjanesskaga. Séra Friðrik Friðriksson stofnandi sumarbúða KFUM og K í Kaldárseli gaf sprungureininni nafnið Gullkistugjá.

14. Skúlatún

Skúlatún er grasi gróinn hæðarhryggur sem stóð hátt í landinu þegar þunnfljótandi helluhraun rann umhverfis hann. Aldur Skúlatúnshrauns hefur ekki verið nákvæmlega greindur, en líklegast þykir að það sé um 1.100 ára en það gæti verið allt að 4.000 ára gamalt. Skúlatún stendur eins eyja í miðri hraunbreiðunni. 

15. Undirhlíðagígar

Undirhlíðagígar kallast röð af smágígum sem mynduðust á gossprungu sem talið er að hafi opnast á tímabilinu 1151-1180 þegar Krýsuvíkureldar loguðu á Reykjanesi. Mikill hraunmassi, sem kallast Bruninn og er líka þekktur undir nöfnunum Nýjahraun og Kapellhraun, varð til í þessum eldsumbrotum.

16. Hrauntröð Háabruna

Megineldgígarnir sem Nýjahraun rann frá um miðja 12. öld voru sitthvoru megin við Krýsuvíkurveginn skammt frá Vatnsskarði. Gígunum hefur verið eytt að mestu með efnistöku, en hrauntröðin sem stærstur hluti Nýjahrauns rann eftir er ágætlega varðveitt. Það er áhugavert að skoða hana í samanburði við Búrfellsgjá. 

17. Fremsti-Höfði

Fremsti-Höfði er lítill móbergsklettur með vörðu sem er gamalt landamerki milli Þorbjarnarstaða og Litla-Lambhaga. Kletturinn sker sig úr nánasta umhverfi þar sem hann stendur því sem næst á gossprungunni milli Fjallsins eina og gígs sem var nefndur Hraunhóll. Sá gígur er að mestu horfinn vegna mikillar efnistöku. 

18. Gjárop í hraunbrún

Margar djúpar og gjár og misgengissprungur er að finna í Hrútagjárdyngjuhrauni. Þar á meðal er sprungurein sem er spölkorn norðvestan við Fjallið eina en meðfram henni lá áður ein af mörgum leiðum um Almenninginn. Gjáin virkar eins og hellisop inn í Hrútagjárdyngjuhraunið séð frá Krýsuvíkurveginum.

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband