Færsluflokkur: Þrautakóngur

19 Hrútárgjárdyngja

Eitt af stærstu hraununum í kringum Hafnarfjörð er komið úr Hrútagjárdyngju. Upptök þess eru nyrst í Móhálsdal. Á gígsvæðinu er allmikil gjá sem heitir Hrútagjá og við hana er dyngjan kennd. Hraunið hefur að mestu runnið til norðurs og til sjávar og hefur myndað ströndina milli Vatnleysuvíkur og Straumsvíkur. Í daglegu tali gengur stærsti hluti hraunsins undir nafninu Almenningur. Öskulög í jarðvegi ofan á hrauninu benda til að hún hafi myndast fyrir um 5000 árum.

20 Draughólshraun

Draughólshraun er að öllum líkindum eitt fáfarnasta hraunið á Reykjanesskaganum. Reyndar er hraunið ekki víðfeðmt, en nægilega þó til þess að bæði fólk og skepnur, nema kannski refurinn, hafa löngum lagt lykkju á leið sína til að forðast að þurfa að ganga um það. Hraunið heitir eftir efsta stóra hólnum í hrauninu; Draughól. Það er dæmigert apalhraun. Líklega hefur nafngiftin komið til af því að fæla fólk að fara um svæðið af ástæðu, eða sem vísbending um að þangað væri ekki óhætt að fara. Í raun er hraunið hluti af stærra hrauni, eða hraunum, á svæðinu. Meginhraunið umhverfis er Hrútagjárdyngjuhraunið. Merkið er við landamerkjavörðu.

21 Hafurbjarnarholt

Hafurbjarnaholt er hæð austan í Almenningi, kennt við Björn Gnúps-Bárðarson, Hafur-Björn, sem samninginn gerði við bergbúann forðum. Gerðu þeir helmingaskipti í fjáreign. Segir sagan að þá hafi komið hafur og hrútur í féð og var þá sem tvö höfuð væru á hverri skepnu. Gerðist Björn þá fjárríkasti bóndi á Suðurnesjum og því kallaður hafur-Björn. Hafur-Bjarnarstaðir eru á Rosmhvalanesi — og má líklega telja að báðir þessir staðir séu kenndir við áðurnefndan Hafur-Björn.

22 Litlu-borgir

Svo nefnast hraunborgir austan Helgafells. Þar eru í Tvíbollahrauni tveir gervigígar og fallegar jarðmyndanir, sem hafa myndast við það að hraun hefur runnið út í stöðuvatn. Sérstæðar jarðmyndanir þar á meðal dropasteinsmyndanir eru eina kunna dæmið um jarðmyndanir af þessu tagi í landi Hafnarfjarðar. Svipuð jarðfræðifyrirbæri má þó sjá í Dimmuborgum og í Katlahrauni við Selatanga. Svæðið hefur stundu verið nefnt Minni-Dimmuborgir eða Hraungerði. Borgirnar eru á tiltölulega afmörkuðu svæði og erfitt að finna þær. Hraunsúlur í skútum og helli hafa fengið að vera að mestu ósnertar. Mosinn er mjög viðkvæmur fyrir átroðningi og ber því að ganga um svæðið með varfærni. Litlu-borgir vorur friðaðar sem náttúruvætti árið 2009.

23 Markrakagil

Allt frá fyrstu landamerkjalýsingu frá 2. degi jóla árið 1603 var Markrakagil eitt af landamerkjum Garðakirkjulands, sbr: „Úr Steinhúsi við neðri Kaldárbotna þaðan í Markrakagil í Undirhlíðum, sem er norðanvert við Fjallið Eina, þaðan til Markraka í Dauðadölum og þaðan í mitt Húsfell.
Árið 1959 þegar Hafnarfjörður varð lögsagnarumdæmi út af fyrir sig með áunnum kaupstaðarréttindum, voru mörk þess m.a. mið við gilið: „...Þá lína i markaþúfu við gömlu sandgryfjurnar. Þaðan í Lækjarbotna. Þá í Gráhellu. Þaðan í miðjan Ketshelli. Eftir Selvogsmanna- eða Grindaskarðavegi í Kaplator (Strandartorfur). Þaðan bein lina í Markraka. Þaðan bein lína um Melrakkagíl (Markrakagil) að Krýsuvíkurvegi. Meðfram Krýsuvikurvegi, þar til kemur að norðurbrún Kapelluhrauns. Með norðurbrún Kapelluhrauns að Keflavikurvegi. Meðfram Keflavíkurvegi suður fyrir Kapelluhraun til sjávar.“

24 Óbrinnishólar

Óbrinnishólar er röð gígaraða í hæð sem stendur upp úr hraunhafinu um 700 metra vestan við Undirhlíðar og tæpum 2 km sunnan við Kaldársel. Hólaröðin sjálf er um 900 metrar á lengd. Hæsti gígurinn er um 44 metra hár yfir næsta umhverfi og 124 metrar yfir sjó. Óbrinnishólar tilheyra Krísuvíkureldstöðvakerfinu. Talið er að um tvö gos hafi verið að ræða. Um fyrra gosið í Óbrinnis-hólum er lítið vitað eða hvenær það gaus, en frá því eru a.m.k. 3 gígir og virðist gosið hafa verið á sama stað þá og í því síðara. Hraun frá þessu gosi er nú hulið yngri gosmyndun. Það er aðeins á einum stað sem fundist hefur hraun frá fyrra gosinu og var það í sjálfum gíghólnum. Síðara gosið hófst fyrir 1800 árum og voru nyrstu gosstöðvarnar í Óbrinnishólum. 

25 Óbrinnishólahraun (-bruni)

Hraunið er með yngstu hraunum í Hafnarfirði og er að miklum hluta úfið kargahraun með samfelldri ráðandi mosaþembu. Óbrinnishólabruni á að hafa runnið 190 f. Kr. Í hrauninu stendur Stakur, blásinn malarhóll sem var vaxinn kjarri í hlíðum og allgróinn. Smalakofi frá Hvaleyrarbændum var á Stak og má sjá móta fyrir tóft hans.

26 Fornasel

Aðaltóttin er vestan í hólnum. Sunnan við hana er stekkur. Aftan við hólinn er lítil tótt og hjá henni vatnsstæði, sem hlaðið hefur verið í kringum. Skammt sunnan þess er önnur tótt, sennilega frá eldra seli. Þótt Fornasel geti varla talist til stærri selja hefur það allt er prýtt getur fallegt sel.

27 Gamla þúfa

Svo nefnist hæsta hæðin í Almenningi. Um er að ræða gróna þúfu efst á þversprungnum hraunkletti í u.þ.b. 110 m hæð yfir sjó. Hún sést vel frá Straumsseli og áður fyrr var hún þekkt kennileiti á Straumsselsstíg áleiðis að Fjallinu eina. Skammt vestan við „þúfuna“ er hlaðin varða.


19 Gvendarbrunnshæðarskúti - v/Alfaraleiðina

Gvendarbrunnur er á mörkum landa Straums og Óttarsstaða við Alfaraleiðina milli Innnesja (Hafnarfjarðar) og Útnesja (Suðurnesja). Brunnurinn er vatnsstæði í klöpp, sem svo algengt er víða í hraununum.
Margar selstöðurnar tóku mið af slíkum vatnsstæðum eða „brunnum“. Örnefið „Gvendarbrunnur“ má finna á fimm stöðum á Reykjanesskaganum og er þetta eitt þeirra. Skammt fá til norðvesturs má augljóslega sjá Gvendarbrunnshæðarskúta, fjárskjól, með áberandi fyrirhleðslum og grónu svæði, sem er eitt helsta einkenni slíkra fjárskjóla.

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband