Færsluflokkur: Ferðalög

8. Selhóll

Sunnan við Hvaleyrarvatn eru m.a. leifar stekkjar. Skammt sunnan hans er klofið hraunhveli í annars sléttu Hellnahrauninu. Hraunhvel myndast vegna þrýstingsáhrifa sem verða sökum mismunandi rennslishraða á milli hálfstorknaðs yfirborðs og hraunkviku undir. Hólar og hæðir í helluhraunum geta líka stafað af því að djúpir hraunstraumar kaffærðu hóla og hæðir sem fyrir voru í landslaginu. Mishæðirnar koma svo aftur í ljós þegar kvikan rennur undan storknaðri hraunskáninni í lok gossins og storkin kvikan sígur.

9. Litlu-borgir

Litluborgir eru fallegar hraunborgir austan Helgafells. Þar eru í Tvíbollahrauni tveir gervigígar og aðrar fallegar jarðmyndanir, sem hafa myndast við það að hraun hefur runnið út í stöðuvatn. Svipuð jarðfræðifyrirbæri má sjá í Dimmu­borgum og í Katlahrauni við Selatanga.

10. Dauðadalshellar

Tvíbollahraun og Hellnahraun yngra runnu um 950 e. Kr. Í hraununum norðvestan við Markraka eru Dauðadalahellar, fallegar og jafnvel flóknar hraunrásir. Þarna gætu hafa runnið fyrstu hraunin á Íslandi eftir að búseta hófst og hellar þess þá fyrstu hellar sem mynduðust hér á landi á sögulegum tíma.

11. Útvörður Helgafells

Móberg er eitt af aðalsmerkjum íslenskrar jarðfræði. Helgafell er ágætt dæmi um slíka myndun. Móberg myndast þegar eldgos verður undir jökli eða í vatni. Við það að gosefnin komast í snertingu við vatn eða ís kólna þau með slíku offorsi að þau hreinlega splundrast og úr verður fínkorna gjóska. Móbergið myndast svo þegar gjóskan tekur að ummyndast fyrir tilstuðlan hita. Við ummyndunina límist gjóskan saman og myndar áberandi brúnleitt móberg með ávöl veðrunarform.

12. Aukahola

12. Landið stendur á Reykjaneshryggnum, sem er úthafshryggur, á mótum tveggja jarðskorpufleka. Flekana rekur um 1 cm í hvora átt á ári að meðaltali. Ummerki þessa mátti sjá í misgengisgjá, mikilli sprungu vestan Undirhlíða. Þegar gos varð í Óbrinnishólum og í sprungurein undir hlíðunum náði þunnfljótandi kvikan að fylla gjána að mestu. Þó má enn sjá niður í djúpa gjána þar sem Aukahola er (12 m djúp) og Aðalhola (17 m djúp) um 850 m norð-austar.

Staðsetning á korti er ekki rétt. Krossinn á að vera þar sem fyrsta a-ið er í Markrakagil. Beðist er velvirðingar á þessu en innsláttarvilla olli skekkjunni. Farið varlega þarna, þetta eru djúpar holur.

 


13. Markhelluhóll

Á Markastein (Markhelluhól/Markhellu) eru klappaðir bókstafir; „ÓTTA“ - „STR“ - „KRYSU“. Áletrunin á að undirstrika landamerki jarðanna Óttarsstaða, Straums og Krýsuvíkur. Landamerkjabréf milli Óttarstaða og Hvassahrauns, sem var ritað 1890 og undirritað vegna Óttarstaða, Hvassahrauns og Krýsuvíkur, kveður hins vegar á um að Markhelluhóll hafi verið rétt suðvestan við Búðarvatnsstæðið, sem er þarna norðvestan við fyrrgreinda Markhellu. Áletrunin á Markhellu var ekki alltaf  þrætulaus, ekki frekar en önnur landamerki.

14. Straumsselshellar, syðri

 Í Straums(sels)hellum-syðri er allgott fjárskjól, og hafði Tjörvi, sem um tíma bjó í Straumsseli, þarna fé um tíma. Við syðri hellana er Gerðið sem notað var til samrekstrar. Straumselshellar-syðri eru rúmgóður fjárhellir og vel  manngengur. Hlaðið er fyrir munnann, en hellisopið er innan við fallega hlaðið gerði í hraunbala. Ofan við gerðið að norðanverðu er hlaðið byrgi eftir refaskyttu. Grjótið var tekið úr réttarveggnum og hlaðið sem skjól um miðja 20. öld.

Staur er rétt við hellinn


15. Straumssel

Straumssel er merkur staður. Það hefur upphaflega verið sel frá Straumi, en selið þróaðist síðan í bæ, eitt fárra af u.þ.b. 250 seljum á Reykjanesskaganum, sem þess heiðurs urðu aðnjótandi. Tóftirnar bera þess líka merki. Þær eru stærri og rúmbetri en í öðrum seljum á svæðinu. Garðar eru allt í  kringum túnin og er fallega hlaðinn stekkur sunnan við tóttirnar. Vatnsstæði er í jarðfalli norðan við þær. Í Straumsseli var búið stundum á 19. öld. Síðast á árunum 1890-1895. Bæjarhúsin eyddust af bruna og hefur ekki verið búið þar síðan.

16. Straumshellir

Við Skógargötuna, rétt suður af Bekkjahrauninu, er hellir, sem nefndur er Sveinshellir. Ekki er vitað um tilefni nafnsins. Hellirinn er nokkuð rúmgóður, en sést ekki, fyrr en að er komið, því að opið er þröngt og fyrir munnann er vaxin birkihrísla mikil. Hellirinn er hvergi manngengur. Myndarleg varða, sem nefnd er Sveinsvarða, er á klapparbrún yfir hellisopinu.

17. Brenniselshellar

 Í Brenniselshæðum eru tveir fjárskútar í kvos, kallaðir Brenniselshellar. Annar er með mikla fyrirhleðslu og var yfirreftur. Hinn er litlu norðaustar og er hlaðið við opið. Í kvosinni eru hríslur. Undir þeim er tóft; brennisel. Hérna virðist hafa verið aðstaða til kolagerðar sem hlýtur að hafa verið víða frá Hraunbæjunum því mikil hrístekja og skógarhögg hefur átt sér stað í grónum hraununum og uppi í Almenningum.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband