15. Straumssel:

Sel frá Straumi þróaðist um tíma í bæ, eitt fárra af u.þ.b. 350 þekktum seljum á Reykjanesskaganum. Búið var þar með hléum á 19. öld en húsin brunnu í lok aldarinnar.
Þegar Guðmundur Guðmundsson keypti Straumsjörðina af Páli Árnasyni sem hafði keypt hana 1839 af konungssjóði leigði hann heimajörðina en stofnaði sjálfur nýtt lögbýli. Guðmundur var gerður að skógarverði í Almenningi og settist að í Straumsseli og húsaði selið vel um 1847. Guðmundur skógarvörður andaðist fimm árum síðar í selinu, nánar tiltekið 1853. Þegar hann gerði Straumssel að bústað sínum klagaði leiguliði hans í Straumi búsetuna til sýslumanns. Leiguliðinn var Bjarni Einarsson útvegsbóndi sem hafði búið þar allt frá því jörðin var í konungseigu. Honum þótti það vera skerðing á fornum rétti landseta að skipta jörðinni upp með þessum hætti. Guðmundur lofaði að fjölga ekki býlum í Straumslandi meðan Bjarni byggi þar. Bjarni gekk að sáttinni að því tilskyldu að bygging hins gamla Straumssels væri sér með öllu óviðkomandi, skyldu yfirvöld kæra búsetuna. Föst búseta var í Straumsseli í ein 40 ár með hléum, enda vatnsstæði lélegt og erfið búsetuskilyrði. Talið er að síðast hafi verið búið í Straumsseli 1890-1895. Bærinn, sem Guðmundur lét reisa í Straumsseli, stóð fram undir aldamótin 1900 eða aðeins lengur en þá mun hann hafa brunnið. Selið fór eftir það í eyði en bæjartóftirnar eru all myndarlegar og vel greinilegar ásamt hlöðnum görðum umhverfis Seltúnið. Einn helsti fræðimaður um sel á Reykjanesskaganum er fornleifafræðingurinn Ómar Smári Ármannsson. Norðan við selið er vatnsból þar sem finna má merkið.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband