Ratleikurinn hefst í dag!
24.6.2014 | 14:19
Í 17. sinn er bæjarbúum og öðrum boðið upp á ratleik í upplandi Hafnarfjarðar í allt sumar. Ratleiksmerki eru á 27 stöðum og í ár er þátttakendum beint inn á fornar þjóðleiðir, sumar stikaðar og aðrar ekki. Sumar eru mjög greinilegar eftir alda notkun en aðrar eru að hverfa í vaxandi gróður í hraununum. Leikurinn leiðir fólk á gömul sel, vatnsból, fallegar hraunmyndanir, staði með sögu og umfram allt á staði sem áhugavert er að ganga til. Það að finna merki er aðeins lokatakmarkið, leiðin að því er jafnvel enn skemmtilegri.
Markmið leiksins
Margir þátttakendur hafa lýst undrun sinni og gleði yfir því að hafa uppgötvað náttúruperlur svo skammt frá bænum en markmið með leiknum er að fá bæjarbúa til kynnast betur landinu hið næsta okkur og sögu þess. Víða eru ummerki forfeðra okkar og búskapar þeirra. Þau ummerki eru kannski ekki öll stór en segja gríðarlega mikla sögu. Sums staðar hefur fól reist sér vistarverið og dvalið um lengri eða skemmri tíma, á stöðum þar sem aðgengi að hreinu vatni var slæmt og langt til byggða.
Hönnunarhúsið ehf. gefur leikinn út fyrir Hafnarfjarðarbæ og hefur gert undanfarin ár. Guðni Gíslason, skáti og ritstjóri Fjarðarpóstsins leggur leikinn og hefur umsjón með honum en hann naut dyggrar aðstoðar Ómars Smára Ármannssonar, lögreglumanns, leiðsögumanns og fornleifafræðings sem lagði til fróðleik um staðina og aðstoðaði við val á þeim.
Þrír áfangar
Þeir sem finna 9 ratleiksmerki teljast Léttfetar, þeir sem finna 18 ratleiksmerki teljast göngugarpar og þeir sem finna öll 27 merkin teljast vera þrautakóngar og þeim fer stöðugt fjölgandi. Stutt er í sum merkin frá vegi en lengst er 2,5 km gönguleið að merki, styðstu leið frá vegi. Þátttakendur geta gefið sér góðan tíma í leikinn enda stendur hann til 21. september en þá er síðasti skilafrestur á úrlausnarblöðum.
Kjörinn fjölskylduleikur
Sífellt fleiri taka þátt í leiknum og er fólk eindregið hvatt til að senda inn lausnirnar í haust. Allir geta tekið þátt og þeir hörðustu finna öll merkin 27 og sjá ekki eftir neinum tíma úti í hraununum og nágrenni byggðarkjarna Hafnarfjarðar. Tilvalið er fyrir fjölskyldur að fara saman í leikinn og njóta útiverunnar saman.
Fjöldi vinninga
Fyrirtæki í Hafnarfirði styðja við leikinn, með vinningum og auglýsingum. Ber þar fyrst að nefna Fjallakofann og Hress en auk þess Fjarðarpóstinn, Altis, Gámaþjónustuna, Músik og sport, Húsasmiðjuna, Fjarðarkaup, Hafnarfjarðarhöfn, Fjörukrána, Gróðrarstöðina Þöll og Valitor auk Hafnarfjarðarbæjar.
Frítt loftmyndakort
Ratleikskortin má nálgast í Fjarðarkaupum, í Bókasafninu, Ráðhúsinu, sundlaugum, bensínstöðvum og víðar. Verður þeim dreift þangað síðar í dag.
Athugasemdir
Finn ekki textann fyrir merki nr.24 á Ratleikur.blog.
Vegna vinnu úti á landi hef ég ekki náð í eintak af ekta Ratleikskorti, en langar til að lesa um staðsetningu allra merkjanna sem fyrst.
Sigurður Jóhannsson (IP-tala skráð) 28.6.2014 kl. 16:52
Hann er í listanum: http://ratleikur.blog.is/blog/ratleikur/entry/1401503
Hönnunarhúsið ehf. , 28.6.2014 kl. 18:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.