Snókalöndin, sem eru tveir grónir óbrennishólmar inni í Brunanum (Nýjahraun/Háabruna), sem nú heitir Kapelluhraun og rann árið 1151.
Gömul gata liggur inn í Snókalöndin frá Stórhöfðastíg skammt sunnan Brunabrúnarinnar, milli hlaðins garðs á henni og hlaðins gerðis utan í hraunsnefi skammt sunnar. Varða, við götuna þar sem hún liggur inn á Brunann, vísar leiðina. Frá henni er gatan augljós yfir nýja hraunið og inn í vestari Snókalöndin. Snókalöndin eru þakin kjarri og lyngi. Þau eru hvað fegurst á haustin þegar litadýrðin er hvað mest.
Ólafur Þorvaldsson segir frá Snókalöndunum í grein sinni um Fornar leiðir... í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1943-48: Hvað liggur til grundvallar þessu nafni veit víst enginn lengur en á tvennt mætti benda. Í fyrra lagi að þarna hafi vaxið villihvönn, snókahvönn - geitla. Í öðru lagi að blettir þessir, sem hafa verið miklu gróðurríkari en umhverfið, hafi fengið nafnið land af töngum þeim og hornum sem hinn ójafni brunakantur myndar þarna í grennd og gæti því þýtt Krókalönd. Í orðabók Blöndals segir að snókur sé angi eða útskiki út frá öðru stærra.
Snókur táknar einfaldlega eitthvað stakt eða einstakt.
Flokkur: Þrautakóngur | 4.6.2015 | 14:10 | Facebook