6. Selgjá - Búrfellsgjá

Svæðið umhverfis Helgafell, Húsfell og Búrfell er þakið hraunum sem eru á þekktri gosrein og þar er misgengislægð sem nefnist Hjallamisgengið. Það er greinilegast í Heiðmörk milli Elliðavatns og Vífilsstaðahlíðar, en nær töluvert lengra til suðvesturs, allt að Kaldá. Við Búrfell eru einnig mikil misgengi og saman myndar þetta misgengja- og sprungukerfi sigdal með stefnu NA-SV sem teygir sig frá Krýsuvík og upp í Úlfarsfell.

Reykjanesskaginn er í raun allur mjög sprunginn. Á liðnum öldum hafa miklar jarðskorpuhreyfingar átt sér stað á skaganum. Þessar hreyfingar eiga sér enn stað og munu einnig eiga sér stað í framtíðinni. Mikið er um misgengi og gjár í hraununum í kringum Hafnarfjörð.


Stöðug og hæg hreyfing í jarðskorpunni veldur spennu í bergi. Spennan getur orðið svo mikil að bergið þolir hana ekki lengur og berglögin bresta. Sprungubarmarnir sem koma fram við hreyfinguna kippast þá yfirleitt til í gagnstæðar áttir og standa mishátt. Sprungur sem myndast á þennan hátt nefnast misgengi.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband