Urðarás er merkilegt jarðfræðifyrirbæri. Um er að ræða svonefndan brothring. Hraunið hefur fallið niður á nokkrum kafla eftir að neðanjarðarhrauná, sennilegast úr Hrútagjárdyngju, hefur stíflast og glóandi hraunkvikan með þrýstingi sprengt sér leið upp með þeim afleiðingum að rásþakið hefur brotnað upp og síðan sigið niður aftur þegar glóandi hraunið flæddi undan. Sambærileg fyrirbæri má sjá á og við stærstu hella landsins. Ólíklegt, enda var það ekki að sjá, að hraunkvikan hafi náð upp á yfirborðið, en hins vegar náðst að tæmast eftir öðrum leiðum eftir að þakið brast. Nokkurn veginn jafnslétt er neðan brothringsins, en svolítill halli ofan hans. Þessar aðstæður gætu skýrt það að ekkert hraun hafi komið upp úr annars djúpri rásinni. Eftir stendur stórbrotinn brotadalur í miðju hrauni. Gaman er að eiga a.m.k. eitt slíkt á Reykjanesskagnum, og það eitt hið merkilegasta á landinu.
Merkið er að finna fyrir miðjum ásnum, vestanmegin.
Flokkur: Þrautakóngur | 12.6.2019 | 13:40 (breytt kl. 13:42) | Facebook