Stórhöfði. Höfðinn er að mestu úr móbergi. Móberg er bergtegund, sem verður til við gos undir jökli eða vatni þar sem gosopið er nálægt eða rétt undir yfirborðinu, öfugt við bólstraberg, sem myndast djúpt undir vatni. Rétt undir yfirborðinu er þrýstingurinn ekki nægur til að halda kvikunni niðri heldur brýst hún upp á yfirborðið í gufusprengingum og verður að gosösku, sem er glersalli. Oft hefjast neðansjávargos eða gos undir jökli með bólstrabergsmyndun ef gosopið er á nægilegu dýpi en þegar á líður grynnkast á opinu og gufusprengingar hefjast með samfarandi gjóskumyndun. Í móberginu má gjarnan finna bólstrabergsbrot eða framandsteina, sem kvikan hefur hrifið með sér á leið upp á yfirborðið. Ef gosopið kemst upp úr vatninu, þannig að gufusprengingum lýkur, hefst hraunrennsli og myndast þá stapar með hraunlagi ofan á móbergsmynduninni, líkt og sjá má á Fjallinu Eina (sjá nr. 22).
Merkð er skammt frá Landmælingavörðu.