Ratleikurinn farinn af stað
29.6.2007 | 11:23
Ratleikur Hafnarfjarðar er kominn út og er þetta í 12. sinn sem leikurinn er lagður.
Markmið með leiknum er að hvetja til útivistar og náttúruskoðunar í fjölbreyttu landi nágrennis Hafnarfjarðar og um leið að vekja athygli á þeim fjölmörgu perlum sem leynast í okkar næst nágrenni.
Leikurinn skiptist upp í þrjá styrkleikaflokka: Léttfeta, Göngugarp og Þrautakóng en að sjálfsögðu er hverjum í sjálfsvald sett að nýta sér leikinn á hvern þann hátt sem hentar best.
Ratleikskortið má fá endurgjaldslaust í Þjónustuveri Hafnarfjarðarbæjar, á bókasfninu og á bensínstöðvum og víðar. Á kortinu eru merktir inn 28 staðir sem þátttakendur leita að. Á hverjum þessara staða er spjald með númeri staðarins og þremur bókstöfum og þremur tölustöfum sem finnandi skráir hjá sér sem sönnun fyrir að hafa fundið staðinn.
Léttfetar eru þeir sem finna fyrstu 8 spjöldin, Göngugarpar eru þeir sem finna fyrstu 20 spjöldin og Þrautakónga eru þeir sem finna öll 28 spjöldin. en þátttakendur ráða í hvað röð gengið er á staðina.
Það getur kostað margar gönguferðir að finna staðina og þátttakendur hafa tíma fram til 18. september en þá er síðast hægt að skila inn lausnum og vera með í úrdrætti um vinninga sem Fjallakofinn, Hress og American Style gefa að þessu sinni. Fyrirtækið Fura er aðalstyrktaraðili leiksins í ár eins og í fyrra.
Pétur Sigurðsson var upphafsmaður að leiknum og lagði hann fyrstu 8 árin. Í ár er það skátinn og ritstjórinn Guðni Gíslason sem leggur leikinn og hefur fengið til liðs við sig Ómar Smára Ármannsson sem tók m.a. saman fróðleiksmola um staðina. Hönnunarhúsið ehf. hefur umsjón með leiknum og gerði ratleikskortið. Gömlum þjóðleiðum er lýst af Jónatani Garðarssyni sem lagði leikinn síðustu þrjú ár.
Athugasemdir
Ratleikurinn er frábær sem fjölskyldusport, hann sameinar útivist og fræðslu á skemmtilegan hátt.
Þetta er 3ja árið sem ég og dóttir mín tökum þátt... með misjöfnum árangri en alltaf jafn gaman samt
Takk fyrir frábært framtak!
KveðjaBergljót
Bergljót (IP-tala skráð) 11.7.2007 kl. 23:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.