Leiðréttingar og ábendingar um ratleikinn
9.7.2007 | 11:28
Fjölmargir taka nú þátt í ratleiknum og nokkrar ábendingar hafa borist. Hér eru nokkrar leiðréttingar og ábendingar:
12. Aukahola: Staðsetning á korti er ekki rétt. Krossinn á að vera þar sem fyrsta a-ið er í Markrakagil. Beðist er velvirðingar á þessu en innsláttarvilla olli skekkjunni. Aðalhola sem nefnd er í textanum er 850 m norð-austar, ekki 900 m sunnar. Farið varlega þarna, þetta eru djúpar holur.
13. Markhelluhóll: Gömlu þjóðleiðirnar Hrauntungustígur, sem sýndur er nokkru austan við Markhelluhól og Stórhöfðastígur sem m.a. fer rétt austan við Fjallið eina eru ekki rétt staðsettir miðað við stikur sem settar hafa verið út. Reyndar skiptast leiðirnar oft upp og því stundum vart hægt að tala um eina leið. Stikuðu leiðirnar fara ekki alveg saman við merktu leiðirnar á kortinu og t.d. liggur Hrauntungustígurinn rétt við Markhelluhólinn og Stórhöfðastígurinn fer sunnan við Fjallið eina. Þetta verður leiðrétt í næsta korti. Gefið ykkur góðan tíma á Markhelluhól, á leiðinni þangað er fjölmargt að skoða.
18. Smalaskálaskjól: Skjólið heitir líka Sjónarhólsskjól skv. Jónínu Guðlaugsdóttur sem fædd er í Lónakoti en fólk á Óttarstöðum mun hafa kallað skjólið Smalaskálaskjól, en skjólið liggur nálægt landamerkjum bæjanni en í landi Óttarstaða.
19. Réttarklettar: Merkingar á Réttarklettum og Dulaklettum er ekki alveg réttar á kortinu, merkið er á réttum stað.
23. Háuhnúkar: Þetta nafn mun vera rangt staðsett á korti og eru háuhúkar hæsti hluti Undirhlíða n-v Vatnsskarðs. Þar sem merkið er heitir Móskarðshnúkar skv. uppl. Jónatans Garðarssonar og skálin sem merkið er í heitir Móskarðsker eða Móskarðsskál. Rétt er að geta að skiptar skoðanir eru um staðsetningu Markrakagils sem þarna er merkt rétt hjá og verður nánar fjallað um það hér síðar.
Njótið náttúrunnar og hafið gaman að leiknum.
Guðni
Athugasemdir
Komdu sæll
Við fjölskyldan höfum haft gaman af göngum um víðan hafnfirskan völl, en eitthvað dró úr gleðinni í gær.... Reyndar lék veðrið við okkur, undan því er ekki hægt að kvarta og margt ægifagurt að sjá.
Í gær átti að finna merki nr 19 og eyddum við góðum 4 klukkutímum í þá leit og fannst mér á tímabili styttra að fara í kaffi út á Vatnsleysuströnd heldur en að halda til baka í Straum.... Snérum við á landamerkjum sveitafélaganna.
Var að gera aðra atlögu að merkinu, en núna var ég líka vopnuð stórgóðri grein í blaði Útivistar um Hraunin. Góð leiðarlýsing þar.
Við leituðum og fundum Lónakot, Nípu, Dulakletta, hlaðna túngarða, skjól með ryðguðu bárujárni, hálf þornaðar leirtjarnir í massavís, hraunskúta, sand, gras, rollur, minka og ótal margt fleira.
En ekki það sem átti að vera þarna, merkið fannst hvergi.
Mér finnst prívat og persónulega að þegar þarf að ganga svona langt að þá eigi merkið ekki að vera vel falið. Þegar allir háir sem lágir voru orðnir ótrúlega þreyttir og dasaðir jarðaði við að auðveldast væri að kalla á þyrlu.... til að bera þá heim.
Við erum búin að finna fjölmörg merki (há og lág númer) og hefur það gengið mjög vel.
Hver er villan á kortinu? Er krossinn á réttum stað en nöfnin ekki rétt staðsett?
Eins og ég nefndi þá fór ég eftir grein Útivistar og nafngiftum þar, en það dugði ekki.
bestu kveðjur
Rósa
Rósa Jónsdóttir, 11.7.2007 kl. 11:59
Sæl Rósa,
Merkin eru aldrei falin, aðeins einu sinni er merkið í myrkri, við "fossinn" í Fosshelli. Merkið á að vera í lágu gerði örlítið austan við klettana. Textinn á kortinu er skv. þessu ekki á réttum stað. Það þarf greinilega að yfirfara kortið aðeins. Ekki langt frá klettunum er spíra sem reist hefur verið upp. Ég veit um fólk sem hefur fundið þetta merki án vandkvæða. En mundu að leiðin að markinu er oft mikilvægari en markið sjálft! :) kv. Guðni.
Hönnunarhúsið ehf. , 11.7.2007 kl. 12:35
Heill og sæll
Ég er alveg hjartanlega sammála þér með yndisauka útivistar, það er hún sem skiptir öllu máli. Hins vegar vilja sumir sem láta plata sig út í hressandi kvöldgöngu fá eitthvað fyrir sinn snúð!
Bestu þakkir fyrir svarið
Rósa
p.s. merkið við fossinn var auðfundið, með vasaljósi. Ég hef aldrei komið svona innarlega í þann helli áður, en hann er ótrúlega fallegur og krakkarnir skemmtu sér konunglega við að skríða á undir girðinguna, fram og til baka.
R.
Rósa Jónsdóttir, 12.7.2007 kl. 10:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.