13. Markhelluhóll

Á Markastein (Markhelluhól/Markhellu) eru klappaðir bókstafir; „ÓTTA“ - „STR“ - „KRYSU“. Áletrunin á að undirstrika landamerki jarðanna Óttarsstaða, Straums og Krýsuvíkur. Landamerkjabréf milli Óttarstaða og Hvassahrauns, sem var ritað 1890 og undirritað vegna Óttarstaða, Hvassahrauns og Krýsuvíkur, kveður hins vegar á um að Markhelluhóll hafi verið rétt suðvestan við Búðarvatnsstæðið, sem er þarna norðvestan við fyrrgreinda Markhellu. Áletrunin á Markhellu var ekki alltaf  þrætulaus, ekki frekar en önnur landamerki.

14. Straumsselshellar, syðri

 Í Straums(sels)hellum-syðri er allgott fjárskjól, og hafði Tjörvi, sem um tíma bjó í Straumsseli, þarna fé um tíma. Við syðri hellana er Gerðið sem notað var til samrekstrar. Straumselshellar-syðri eru rúmgóður fjárhellir og vel  manngengur. Hlaðið er fyrir munnann, en hellisopið er innan við fallega hlaðið gerði í hraunbala. Ofan við gerðið að norðanverðu er hlaðið byrgi eftir refaskyttu. Grjótið var tekið úr réttarveggnum og hlaðið sem skjól um miðja 20. öld.

Staur er rétt við hellinn


15. Straumssel

Straumssel er merkur staður. Það hefur upphaflega verið sel frá Straumi, en selið þróaðist síðan í bæ, eitt fárra af u.þ.b. 250 seljum á Reykjanesskaganum, sem þess heiðurs urðu aðnjótandi. Tóftirnar bera þess líka merki. Þær eru stærri og rúmbetri en í öðrum seljum á svæðinu. Garðar eru allt í  kringum túnin og er fallega hlaðinn stekkur sunnan við tóttirnar. Vatnsstæði er í jarðfalli norðan við þær. Í Straumsseli var búið stundum á 19. öld. Síðast á árunum 1890-1895. Bæjarhúsin eyddust af bruna og hefur ekki verið búið þar síðan.

16. Straumshellir

Við Skógargötuna, rétt suður af Bekkjahrauninu, er hellir, sem nefndur er Sveinshellir. Ekki er vitað um tilefni nafnsins. Hellirinn er nokkuð rúmgóður, en sést ekki, fyrr en að er komið, því að opið er þröngt og fyrir munnann er vaxin birkihrísla mikil. Hellirinn er hvergi manngengur. Myndarleg varða, sem nefnd er Sveinsvarða, er á klapparbrún yfir hellisopinu.

17. Brenniselshellar

 Í Brenniselshæðum eru tveir fjárskútar í kvos, kallaðir Brenniselshellar. Annar er með mikla fyrirhleðslu og var yfirreftur. Hinn er litlu norðaustar og er hlaðið við opið. Í kvosinni eru hríslur. Undir þeim er tóft; brennisel. Hérna virðist hafa verið aðstaða til kolagerðar sem hlýtur að hafa verið víða frá Hraunbæjunum því mikil hrístekja og skógarhögg hefur átt sér stað í grónum hraununum og uppi í Almenningum.

18. Smalaskálaskjól

Norðvestan undir Smalaskálahæð er Smalaskálaskúti, hellir, sem fé lá inni í. Þar var skógarhrísla stór, sem óx fyrir hellismunnann. Hér má sjá dæmigert fjárskjól í Hraununum; hlaðið fyrir skúta, venjulega í skjóli fyrir austanáttinni, og síðan reft yfir. Nú er þakið fallið, en eftir standa hleðslurnar á skjólgóðum stað.

19. Réttarklettar

Vestan Lónakots hefur legið vagnfær gata, framhjá Nípu og að Réttarklettum, fallegum stökum klettastrýtum. Milli þeirra eru allvel grónar flatir og réttartættur, garðar og skjól. Fjárskjól eru skammt frá. Talið er að þarna hafi fyrrum verið bær, sem nefndur var Svínakot.

20. Óttarsstaðaborg

Túnið á Óttarsstöðum var allstórt og var því deilt milli bæjanna í Vestur­bæjartún og Austurbæjartún. Umhverfis Óttarsstaðabæina er eina umtalsverða og samfellda graslendið í Hraunum, enda var byggðin þéttust þar. Enn standa margir túngarðar og veggir óhaggaðir í Hraununum, hlaðnir af Guðmundi Sveinssyni frá Óttarsstöðum. Við Klofa er Óttars­staðaréttin, heilleg heimarétt á skjólgóðum stað. Í henni er m.a. með lambakró þar sem merkið má finna.

21. Þorbjarnarstaðaborg

Á austanverðri hraunbrún Kapelluhrauns (Nýjahrauns/Brunans) við Brundtorfur er Fjárborgin, eða Þorbjarnarstaðafjárborgin. Hún stendur enn nokkuð heilleg. Innanmál hennar eru um 7 m. Fjárborgin var hlaðin af börnum Þorbjarnarstaðahjónanna um aldamótin 1900. Greinilegt er að borgin hefur átt að verða topphlaðinn líkt og Djúpudalaborgin ofan við Selvog, en Þorkell, bóndi á Þorbjarnastöðum, var einmitt frá Guðnabæ í Selvogi.

22. Strýtur

Kapelluhraun, eða Nýjahraun, eins og það var nefnt, mun hafa runnið um 1150. Grónara hraun, Hrútagjárdyngjuhraun er vestan þess, um 4000-5000 ára gamalt. Þar sem Stórhöfðastígur liggur til suðausturs upp með hraunskilunum má sjá fallegar hraunmyndanir á vinstri hönd. Undirliggjandi þrýstingur storknandi hraunkvikunnar hefur reist hér storknaða hraunfleka lóðrétt upp í loftið og standa þeir nú sem eitt helsta kennileitið á þessari fornu þjóðleið milli Hafnarfjarðar og Kýsuvíkur.

Merkið er við strýtuna rétt við Stórhöfðastíginn.


23. Háuhnúkar

Háuhnúkar, móbergsstapar, eru hæstu ásar Undirhlíða suðvestan Markrakagils og skammt frá Vatnsskarði, allt að 263 metra háir. Bergtegundir veðrast mjög mishratt. Þegar móbergið sem kemst í snertingu við gufuhvolfið veðrast það auðveldlega. Vindur og vatn eru mikilvægir þættir veðrunar. Glögg ummerki þessa má glögglega sjá hér í Háuhnúkum.

Merkið er í stórri skál (dal).


24. Óbrinnishólaker

 Óbrinnishólaker er í Óbrinnishólabruna. Hraunið rann um 190 f. Kr. Þar er myndarleg mosavaxin hrauntjörn. Í honum er Óbrinnishólahellir. Hellirinn er í gjárbarminum að sunnanverðu, sunnan syðri Óbrinnishólanna. Hlaðið er gerði fyrir framan munnan, en rásin er opin inn að öðru leyti. Hún er um 15 metrar, björt og rúmgóð. Gólfið er flórað fremst, en innanvert gólfið er nokkuð slétt. Hellirinn rúmaði nokkra tugi fjár og var notað af Hvaleyrarbændum.

Merkið er innan við fyrirhleðslu í hellinum.


25. Smyrlabúð

Hérna var gamla lestamannaleiðin um Selvogsgötu (Suðurferðaveg) um aldir og allt fram undir 1940 á meðan henni var haldið við með ruðningi sem sýsluvegi. Allnokkru norðar Selvogsgötu rís upp allhár bergkambur sem ber nafnið Smyrlabúðir. Hleðslur má sjá við hraunkantinn að baki Sléttuhlíðar, þar sem gatan liggur þrengst milli hans og hlíðarinnar. Ekki er ólíklegt að Selvogsbúar á leið sinni í Hafnarfjörð hafi staldrað þarna við, slegið upp tjöldum og dvalið yfir nótt til að komast árla í kaupstaðinn. Gerðið gæti hafa verið fyrir hesta eða fé.

26. Garðaflatir

Í Gráskinnu er sagt að „Garðar og Garðakirkja hafi einu sinni verið á Garðaflötum, sem eru skammt fyrir sunnan Hafnarfjörð, en hafi verið flutt þegar hraunið rann. Sagan segir að fólkið í Görðum hafi flúið undan hrauninu með ljós í hendi, en svo hafi verið um mælt, að kirkjuna skyldi reisa þar, sem ljósið slokknaði, en það var þar, sem nú er kirkjan og Garðastaður.“ Tóftir við Garðaflatir eru greinilega mjög gamlar, jafnvel jarðlægar. Þeirra er ekki getið í örnefnaskráningu Garðabæjar.

Reynið að sjá tóftirnar eftir gerði og hús.


27. Fosshellir

Fosshellir er innan við jarðfall í sömu hraunrás og Rauðshellir og Hundrað­metrahellir milli Helgadals og Búrfellsgýgs, spölkorn ofar (austar). Um tíma var Rauðshellir nefndur Pólverjahellir, að sögn eftir pólskri áhöfn báts, sem dvaldist um tíma í Hafnarfjarðarhöfn, en fengu ekki inni í bænum. Nafnið mun hins vegar vera komið vegna þess að börnin í Pólunum í Reykjavík fóru þangað í sumarferðir og höfðu gaman af.

Takið endilega með vasaljós. Merkið er við fossinn í hellinum.


28. Gýgur

Úr gíg hér norðaustan Undirhlíða hefur runnið hraun sem Jón Jónsson, jarðfræðingur, nefnir Gvendarselshraun. Í eldgosinu á tólftu öld rann örþunnt hraun úr Gvendarselsgígum að Helgafelli og niður í Kaldárbotna og þaðan niður fyrir Kaldársel og nam þar staðar. Þetta hraun hefur verið mjög heitt og þunnfljótandi því að það fyllti í allar lægðir. Gýgur þessi er nyrst í 25 km langri gígaröð. Hann stendur stakur og er ákjósanlegur til að sjá og fræðast um tilurð klepramyndunar í dæmigerðum gosgýg.

Nýr ratleikur í vinnslu

Hafnarfjarðarbær býður upp á ratleik fyrir alla, unga sem aldna, í tólfta sinn. Leikurinn skiptist í þrjá styrkleikaflokka: Léttfeta, Göngugarp og Þrautakóng en að sjálfsögðu er hverjum í sjálfsvaldi sett að nýta sér leikinn á hvern þann hátt sem hentar best. Markmiðið með leiknum er að hvetja til útivistar og náttúruskoðunar í fjölbreyttu landi nágrennis Hafnarfjarðar og um leið vekja athygli á þeim fjölmörgu perlum sem leynast í okkar næsta nágrenni.
Frá upphafi hafa aðeins tveir menn lagt leikinn, upphafsmaðurinn Pétur Sigurðsson og síðan Jónatan Garðarsson síðustu þrjú árin. Í ár er það skátinn og ritstjórinn Guðni Gíslason sem leggur leikinn og hefur hann fengið Ómar Smára Ármannsson sér til ráðgjafar en Ómar Smári er fjölkunnugur söguslóðum á Reykjanesinu öllu.

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband