27 Stakur - SA við hæðina

Óbrinnishólahraun (-bruni) er með yngstu hraunum í Hafnarfirði og er að miklum hluta úfið kargahraun með samfelldri ráðandi mosaþembu. Óbrinnishólabruni á að hafa runnið 190 f. Kr. Í hrauninu stendur Stakur, blásinn malarhóll sem var vaxinn kjarri í hlíðum og allgróinn. Smalakofi frá Hvaleyrarbændum var á Stak og má sjá móta fyrir tóft hans.

Ratleikurinn hefst 27. júní

Ratleikur Hafnarfjarðar hefst á föstudaginn en þá kemur úr prentun nýtt ratleikskort með nýjum myndagrunni sem ætti að geta gagnast mörgum og alla vega haft ánægju af að skoða.

Staðirnir eru 27 í ár, 9 í Léttfeta, 18 í Göngugarpi og 27 í Þrautakóngi.

Á nýja kortinu eru upplýsingar ekki eins og á því gamla og verið óþreytandi við að senda inn ábendingar um það sem betur má fara á kortinu og eins er ekki slegið á móti ánægjuröddum.


Nýtt myndakort í ár

Nýtt myndakort frá Samsýn verður notað við gerð ratleikskortsins í ár. Þetta gefur þátttakendum mun betri tækifæri á að átta sig á aðstæðum og þannig nýtist kortið við alla almenna útivist í upplandi Hafnarfjarðar. Þetta hefur tafið aðeins upphaf leiksins en búist er við að hann verði tilbúinn eftir um vikutíma. Fylgist með.

Kristbjörg Lilja þrautakóngur - Góð þátttaka í Ratleiknum

Dregið var úr innsendum lausnum og í móttöku í Þjónustuveri Hafnarfjarðarbæjar:

Ratleikur-verdlaun-21

 

 

 

Heppnir þátttakendur sem fengu þeir matarúttekt hjá American Style:
Ásdís Erla Jóhanns­dóttir Blikahjalla 1, Kópavogi,
Bjarni Ricther, Kvíholti 3, Hafnarfirði 
Sigrún Baldursdóttir, Suðurhvammi 18, Hafnarfirði.

Léttfeti sem fékk forláta Ajungilak svefnpoka frá Fjallakofanum:
Ingimar Ingimarsson, Holtsbúð 41, Garðabæ

Göngugarpur sem fékk vandaði Scarpa gönguskó frá Fjalla­kofan­um:
Birna Grétarsdóttir, Hraunbrún 1, Hafnarfirði

Þrautakóngur sem fékk árskort í líkamsrækt hjá Hress:
Krist­björg Lilja Jónsdóttir, Vesturvangi 28, Hafnarfirði.

Vinningshafarnir fengu allir viðurkenningarskjal, undirritað af bæjarstjóra.


Verðlaun afhent í dag

Verðlaun í Ratleik Hafnarfjarðar 2007 verða afhent í þjónustumið Hafnarfjarðarbæjar í Ráðhúsinu í dag, þriðjudag kl. 17.

Léttar veitingar. 

Allir eru velkomnir.


Ratleiknum lokið - merkin enn uppi

Nú er ratleiknum formlega lokið og dregið verður úr innsendum lausnum á næstu dögum. Fyrirspurnir hafa komið hvort merkin verði tekin niður strax en sumir vilja gjarnan fara á fleiri staði þó leiknum sé formlega lokið.

Merkin hafa ekki verið tekin niður enn og við látum vita hér á síðunni þegar það verður gert. Notið endilega næstu helgar til útiveru. Fátt er hressilegra en að vera vel klæddur í rigningu úti í náttúrunni. 

kv.

Guðni


Leiðréttingar og ábendingar um ratleikinn

Fjölmargir taka nú þátt í ratleiknum og nokkrar ábendingar hafa borist. Hér eru nokkrar leiðréttingar og ábendingar:

12. Aukahola: Staðsetning á korti er ekki rétt. Krossinn á að vera þar sem fyrsta a-ið er í Markrakagil. Beðist er velvirðingar á þessu en innsláttarvilla olli skekkjunni. Aðalhola sem nefnd er í textanum er 850 m norð-austar, ekki 900 m sunnar. Farið varlega þarna, þetta eru djúpar holur.

13. Markhelluhóll: Gömlu þjóðleiðirnar Hrauntungustígur, sem sýndur er nokkru austan við Markhelluhól og Stórhöfðastígur sem m.a. fer rétt austan við Fjallið eina eru ekki rétt staðsettir miðað við stikur sem settar hafa verið út. Reyndar skiptast leiðirnar oft upp og því stundum vart hægt að tala um eina leið. Stikuðu leiðirnar fara ekki alveg saman við merktu leiðirnar á kortinu og t.d. liggur Hrauntungustígurinn rétt við Markhelluhólinn og Stórhöfðastígurinn fer sunnan við Fjallið eina. Þetta verður leiðrétt í næsta korti. Gefið ykkur góðan tíma á Markhelluhól, á leiðinni þangað er fjölmargt að skoða.

18. Smalaskálaskjól: Skjólið heitir líka Sjónarhólsskjól skv. Jónínu Guðlaugsdóttur sem fædd er í Lónakoti en fólk á Óttarstöðum mun hafa kallað skjólið Smalaskálaskjól, en skjólið liggur nálægt landamerkjum bæjanni en í landi Óttarstaða.

19. Réttarklettar: Merkingar á Réttarklettum og Dulaklettum er ekki alveg réttar á kortinu, merkið er á réttum stað.

23. Háuhnúkar: Þetta nafn mun vera rangt staðsett á korti og eru háuhúkar hæsti hluti Undirhlíða n-v Vatnsskarðs. Þar sem merkið er heitir Móskarðshnúkar skv. uppl. Jónatans Garðarssonar og skálin sem merkið er í heitir Móskarðsker eða Móskarðsskál. Rétt er að geta að skiptar skoðanir eru um staðsetningu Markrakagils sem þarna er merkt rétt hjá og verður nánar fjallað um það hér síðar.

Njótið náttúrunnar og hafið gaman að leiknum.

Guðni

 


Ratleikurinn farinn af stað

ArnarklettarRatleikur Hafnarfjarðar er kominn út og er þetta í 12. sinn sem leikurinn er lagður.

Markmið með leiknum er að hvetja til útivistar og náttúruskoðunar í fjölbreyttu landi nágrennis Hafnarfjarðar og um leið að vekja athygli á þeim fjölmörgu perlum sem leynast í okkar næst nágrenni.

Leikurinn skiptist upp í þrjá styrkleikaflokka: Léttfeta, Göngugarp og Þrautakóng en að sjálfsögðu er hverjum í sjálfsvald sett að nýta sér leikinn á hvern þann hátt sem hentar best.

Ratleikskortið má fá endurgjaldslaust í Þjónustuveri Hafnarfjarðarbæjar, á bókasfninu og á bensínstöðvum og víðar. Á kortinu eru merktir inn 28 staðir sem þátttakendur leita að. Á hverjum þessara staða er spjald með númeri staðarins og þremur bókstöfum og þremur tölustöfum sem finnandi skráir hjá sér sem sönnun fyrir að hafa fundið staðinn.

Léttfetar eru þeir sem finna fyrstu 8 spjöldin, Göngugarpar eru þeir sem finna fyrstu 20 spjöldin og Þrautakónga eru þeir sem finna öll 28 spjöldin. en þátttakendur ráða í hvað röð gengið er á staðina.

Það getur kostað margar gönguferðir að finna staðina og þátttakendur hafa tíma fram til 18. september en þá er síðast hægt að skila inn lausnum og vera með í úrdrætti um vinninga sem Fjallakofinn, Hress og American Style gefa að þessu sinni. Fyrirtækið Fura er aðalstyrktaraðili leiksins í ár eins og í fyrra.

Pétur Sigurðsson var upphafsmaður að leiknum og lagði hann fyrstu 8 árin. Í ár er það skátinn og ritstjórinn Guðni Gíslason sem leggur leikinn og hefur fengið til liðs við sig Ómar Smára Ármannsson sem tók m.a. saman fróðleiksmola um staðina. Hönnunarhúsið ehf. hefur umsjón með leiknum og gerði ratleikskortið. Gömlum þjóðleiðum er lýst af Jónatani Garðarssyni sem lagði leikinn síðustu þrjú ár.

1. Gráhella

Gráhella er klettaborg í austanverðu Gráhelluhrauni. Um hana sunnanverða liggja landamerki Setbergs. Tóft er norðvestan undir hellunni. Friðþófur Einarsson á Setbergi segir líklegt að tóftin hafi fyrrum verið fjárhús að hluta, annað hvort frá Setbergi eða kotbýlunum við Stekkjarhraun.

Gráhella er stutt frá reiðstíg.


2. Kershellir

Að sögn Friðþófs á Setbergi er Kershellir nafnið á fyrrum selshelli Setbergsmanna. Afi hans, Jóhannes, notaði hellinn sem fjárhús eftir aldarmótin 1900 uns hann byggði fjárhús uppi á Húsatúni.  Ofan við Kershelli er Hvatshellir í stóru jarðfalli. Hann opnaðist í jarðskjálfta á 19. öld. Kers­hellir, sem er á landamerkjum er tvískiptur; nyrðri helmingurinn tilheyrði Setbergi og sá syðri Hamarskoti. Hellirinn hefur stundum verið nefndur Ketshellir.

3. Klifsholt

Í auglýsingu um Reykjanesfólkvang segir m.a. um mörkin: „Lína dregin á mörkum Garðahrepps og Hafnarfjarðar við Kershelli. Þaðan eftir þeim mörkum inn fyrir sumarbústaðahverfi í Sléttuhlíð á hæð er Klifsholt heitir, þaðan beint í Steinshús, sem er glöggt og gamalt eyktamark.“ Frá Klifsholti er einstaklega falleg fjallasýn.

4. Steinhús

Steinhús er náttúrulegt „hús“ á landamerkjum. Steinhús er holur gasupp­streymishóll á hraunrás í Gjáahrauni. Í hraunrásinni má m.a. finna Kaðalhelli.

5. Ingvarslundur

 Í Undirhlíðum er minnisvarði um fyrsta formann Skógfræktarfélagsins, Ingvar Gunnarsson. Sumarið 1930 plantaði Ingvar fyrstu barrtrjánum þarna ofarlega í Litla-Skógarhvammi, kjarri vöxnum unaðsreit í Undirhlíðum. Vorið 1934 var hvammurinn girtur og skólabörn og drengir í Vinnuskólanum í Krýsuvík bættust síðar í hóp trjáræktenda. Lundurinn hefur einnig verið nefndur Skólalundur.

6. Gjár

Gjár eru milli Klifsholts og Fremstahöfða. Uppruni hraunsins er í Búrfellsgíg, 1-2 km fjær. Hraunið er talið vera í kringum 7200 ára. Tveir megin hraunstraumar hafa komið frá Búrfelli. Sá hraunstraumur sem er Hafn­arfjarðarmegin hefur eftirfarandi nöfn:  Smyrlabúðahraun, Gráhelluhraun, Lækjar­botnahraun, Stekkjar­hraun, Sjávarhraun, Arnarhraun og Flatar­hraun. Garðabæjarmegin er Garða­hraun, Urriðakotshraun, Vífil­staðahraun, Hraunholtshraun, Gálgahraun og Bala­hraun. Í Gjáahrauni eru fallegar grónar hrauntraðir og stuttar rásir.


7. Arnarklettar

7. Kapellu- og Óbrinnishólahraun (-bruni) eru með þeim yngstu í Hafnarfirði og skilja sig greinilega frá öðrum þar sem þau eru að miklum hluta úfin kargahraun með samfelldri mosaþembu. Óbrinnishólabruni rann 190 f. Kr. og Kapelluhraun (Nýjahraun/Bruninn) rann 1151 e.Kr. Hraunsvæðið suðaustan við Stórhöfða hefur stundum verið nefnt Arnarklettabruni í Stórhöfðahrauni. Upp úr því rísa þrír klettastandar; Arnarklettar.

Hraunið er úfið og farið varlega.


8. Selhóll

Sunnan við Hvaleyrarvatn eru m.a. leifar stekkjar. Skammt sunnan hans er klofið hraunhveli í annars sléttu Hellnahrauninu. Hraunhvel myndast vegna þrýstingsáhrifa sem verða sökum mismunandi rennslishraða á milli hálfstorknaðs yfirborðs og hraunkviku undir. Hólar og hæðir í helluhraunum geta líka stafað af því að djúpir hraunstraumar kaffærðu hóla og hæðir sem fyrir voru í landslaginu. Mishæðirnar koma svo aftur í ljós þegar kvikan rennur undan storknaðri hraunskáninni í lok gossins og storkin kvikan sígur.

9. Litlu-borgir

Litluborgir eru fallegar hraunborgir austan Helgafells. Þar eru í Tvíbollahrauni tveir gervigígar og aðrar fallegar jarðmyndanir, sem hafa myndast við það að hraun hefur runnið út í stöðuvatn. Svipuð jarðfræðifyrirbæri má sjá í Dimmu­borgum og í Katlahrauni við Selatanga.

10. Dauðadalshellar

Tvíbollahraun og Hellnahraun yngra runnu um 950 e. Kr. Í hraununum norðvestan við Markraka eru Dauðadalahellar, fallegar og jafnvel flóknar hraunrásir. Þarna gætu hafa runnið fyrstu hraunin á Íslandi eftir að búseta hófst og hellar þess þá fyrstu hellar sem mynduðust hér á landi á sögulegum tíma.

11. Útvörður Helgafells

Móberg er eitt af aðalsmerkjum íslenskrar jarðfræði. Helgafell er ágætt dæmi um slíka myndun. Móberg myndast þegar eldgos verður undir jökli eða í vatni. Við það að gosefnin komast í snertingu við vatn eða ís kólna þau með slíku offorsi að þau hreinlega splundrast og úr verður fínkorna gjóska. Móbergið myndast svo þegar gjóskan tekur að ummyndast fyrir tilstuðlan hita. Við ummyndunina límist gjóskan saman og myndar áberandi brúnleitt móberg með ávöl veðrunarform.

12. Aukahola

12. Landið stendur á Reykjaneshryggnum, sem er úthafshryggur, á mótum tveggja jarðskorpufleka. Flekana rekur um 1 cm í hvora átt á ári að meðaltali. Ummerki þessa mátti sjá í misgengisgjá, mikilli sprungu vestan Undirhlíða. Þegar gos varð í Óbrinnishólum og í sprungurein undir hlíðunum náði þunnfljótandi kvikan að fylla gjána að mestu. Þó má enn sjá niður í djúpa gjána þar sem Aukahola er (12 m djúp) og Aðalhola (17 m djúp) um 850 m norð-austar.

Staðsetning á korti er ekki rétt. Krossinn á að vera þar sem fyrsta a-ið er í Markrakagil. Beðist er velvirðingar á þessu en innsláttarvilla olli skekkjunni. Farið varlega þarna, þetta eru djúpar holur.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband