Færsluflokkur: Ferðalög

2 Grjótvirki á Hádegisholt

Hlaðið grjótvirki sem stendur nálægt efsta hluta Hádegisholts, en hæðin var einnig nefnd Flóðahjalli. Skotbyrgið hlóðu breskir hermenn úr 1/7 herfylki Wellingtons vorið 1940. Það er um 800 m² að stærð og víða hefur hrunið úr veggjum þess, sem voru rúmlega 1 m háir.

3 Stekkur við Stekkjartún

Fallega hlaðnir veggir af smáhýsi  eða stekk við Stekkjartúnið. Suðvestan við klett sem tóftin stend­ur hjá er einföld kvíahleðsla sem er nánast vall­gróin. Hraunhóllinn Einbúi er skammt frá hleðslunum og norðaustan þeirra er allnokkur furutrjálundur í Flatahrauni.

4 Beitarhús nærri Selgjá

Veggir af fornu beitarhúsi í landi Urriðakots sem hlaðið var til skjóls fyrir útigangsfé og senni­lega smalann líka. Ekki er vitað um aldur hússins sem er ekki lengur reft og standa veggirnir einir eftir, ásamt sér­kennilegri hleðslu á milli hraunkletta með einskonar glugga sem snýr  í austurátt.

5 Hleðsla við Selgjárhelli

Norðurhellar eru í Selgjá (Norður­hellagjá) sem er beint framhald Búrfellsgjár. Hellarnir voru nýtt­ir í tengslum við selbúskap 8 kóngsjarða á Álftanesi. Talið er að selin hafi verið 11 talsins og eru tóftir nokkurra mjög greinilegar við gjárbarmana, en minna ber á öðrum seltóftum.

6 Vatnsendaborg

Fjárborg Vatnsendabænda stendur hátt á Hjallabrúnum skammt frá landamerkjarvörðu á Arnarbæli (Arnarsetri) sem skipti löndum milli Vífilsstaða og Vatnsenda. Borgin er rétt innan við landamerki Vatnsendalands og var helsta skjól  sauðanna sem voru þar á vetrarbeit

7 Gjáarrétt í Búrfellsgjá

Gjáarrétt var fjallskilarétt Álftnesinga og bendir margt til að hún hafi verið stærri áður fyrr. Al­menn­ingurinn er óvenju lítill, en þessi rétt var hlaðin árið 1839 og hætt að nota hana 1920 þegar Hraunrétt í Gráhelluhrauni varð lögrétt. Gjáarrétt var friðlýst 1964.

8 Fallin fjárborg á Selhöfða

Selhöfði ber nafn með rentu því nokkur sel voru norðan og vestan við hann. Ofarlega á höfðanum er tölu­verð grjóthrúga; leifar hruninnar fjárborgar. Grjótið lætur ekki mikið yfir sér þar sem það liggur á víð og dreif en auðvelt er að ímynda sér hversu stór fjárborgin var. 

9 Húsatóft við Fremstahöfða

Rétt austan við Fremstahöfða eru vegghleðslur fjárhúss sem byrjað var að reisa úr hraun­grjóti rétt eftir aldamótin 1900 en var aldrei klárað að því er næst verður komist. Húsatóftin minnir á það hversu mikið menn voru tilbúnir að leggja á sig til að skýla sauðfé sínu fyrir vertrarveðrum.

10 Fallin fjárborg á Borgarstandi

Vestur af Borgarstandi er beitarhúsatóft með gerði en suðvestan Smalaskála eru nokkrir fjárhellar með tilheyrandi hleðslum. Tvær fjárborgir stóðu á Borgarstandi en grjótið úr eystri borginni var fjarlægt á sínum tíma. Vestari borgin er hrunin og eru minjar hennar friðlýstar.

11 Vatnsveituhleðsla í Lambagjá

Veturinn 1917-18 voru hlaðnar undirstöður fyrir 1.600 m opna trérennu  sem lá frá Kaldárbotnum að Sléttuhlíð, þar sem vatn var látið renna niður í hraunið. Öll hleðslan milli Lambagjár og Kaldárhnúka er friðuð og ekki má raska þessu mannvirki á neinn hátt. 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband