Ratleikurinn hefst í næstu viku
4.6.2015 | 15:44
Ratleikur Hafnarfjarðar 2015 hefst í næstu viku. Búið er að leggja út öll ratleiksmerki og kortið er á leiðinni í prentun. Nánari dagsetning verður gefin upp strax eftir helgi.
Þemað í ár eru hraun- og jarðmyndanir en gríðarlega mörg hraun umlykja bæinn. Við rennsli þeirra, storknun og jarðskorpuhreyfingar hafa myndast fjölskrúðugar jarðmyndanir sem áhugavert er að skoða.
Að þessu sinni er ekki mjög langar gönguleiðir að merkjunum eins og oft hefur verið og auðvitað munu vant ratleiksfólk kannast við einhverja staði. Á hverju ári bætast nýir þátttakendur í hópinn og er það sérstaklega ánægjulegt.
Að venju er minnt á drengilega keppni. Þeir sem skila inn þurfa að sjálfsögðu að hafa farið á viðkomandi staði og öll "lán" á númerum jafngildir svindli í leiknum.
Ekki gleyma að njóta leiðarinnar að merkjunum og gefið ykkur góðan tíma við þau og umhverfi þeirra. Sem fyrr er ekki heimilt að hreyfa við merkjunum eða að birta myndir af þeim þar sem lausnarorðin sjást.
Berið gjarnan út boðskapinn, deilið út þessum pósti og hvetjið fólk til að smella á LIKE á Facebook síðu Ratleiksins www.facebook.com/ratleikur
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.