7 Langholt - við vörðu

Árið 1980 var fyrstu landnemaspildunum úthlutað til skógræktarfólks, fyrst til skólanna og ýmissa hópa en síðar til einstaklinga. Margra ára vinna fór í súginn í norðanverðu Langholti nærri Selhöfða er kveikt var í sinu í vor sem breiddist hratt út. Víða er að vaxa upp fallegur skógur og eftir ákveðinn tíma láta landnemarnir spildurnar af hendi og fagna góðu verki sem komandi kynslóðir njóta góðs af.

8 Gjár - undir klettavegg við hleðslu

Gjárnar nefnist sérstætt svæði vestan Kaldársels með fjölbreytilegu hraunlandslagi sem er friðað náttúruverndarsvæði. Uppruni hraunsins er í Búrfellsgíg sem er í 1-2 km fjarlægð en það er talið vera í kringum 7200 ára gamalt. Frá gígnum rann mikil hraunbreiða niður í Hafnarfjörð og Skerjafjörð og er heildarflatarmálið er u.þ.b. 18 ferkílómetrar.

9 Kaldá - í hraunkanti

Í eldgosi, sem líklega varð á tólftu öld, rann hraunspýja með Kaldárbotnum og nam staðar neðan Kaldársels. Hraunið sem var þunnfljótandi fyllti í allar lægðir á leið sinni og storknaði án þess að í því mynduðust kólnunarsprungur og gjótur. Þegar grunnvatnsborð í Kaldárbotnum lækkar niður fyrir efri brún hraunsins hverfur Kaldá. Þegar mest er í ánni rennur hún að hraunbrúninni skammt vestan Kaldársels þar sem hún fer hindrunarlaust undir það á tveimur stöðum - og kemur aftur undan því við Straumsvík.

10 Rótarýlundur - inni í skógi

Milli Syðra- og Nyrðra Klifsholts eru nokkrar landnemaspildur í umsjá félagahópa, þ.m.t. Rótarýklúbbs Hafnarfjarðar þar sem félagar klúbbsins ásamt Innerwheel konum hafa plantað árlega í rúma tvo áratugi. Þar eru borð og bekkir til áningar og unnið er að gerð göngustíga. Nýlega var settur upp minningarsteinn í skógarlundi um látna félaga.

11 Ker - í skúta milli kerja

Kerin eru falleg náttúrufyrirbæri, hluti af gígaröð. Hægt er að ganga niður í nyrðri gíginn og um gat upp í þann syðri. Hann er kjörinn áningastaður, enda skjólgóður með afbrigðum. Ofan við barma hans vex ein stærsta villta birkihrísla á Reykjanesskaganum, um 5-6 m há. Hið ágætasta útsýni var frá Kerunum suðvestur að Keili og Grænudyngju með Fjallið eina í forgrunni.

12 Stórhöfðastígur - á kletti

Stórhöfðastígur liggur frá suðurhorni Stórhöfða, með norðanverðum hraunkanti Óbrinnishólabruna og til suðurs í gegnum Selhraun og áleiðis upp í Almenninga austan við Brundtorfur. Þaðan virðist stígurinn óljós en með gaumgæfni má vel lesa sig eftir honum að Hraunhól norðan Fjallsins eina.

13 Gjásel - á grónu svæði

Gjásel er við svonefndar Gjár. Stekkur er norðan undir hraunhól sem selið stendur á og vatnsstæðið er í grónum hólnum vestan við seltóftirnar. Líklega er þetta fornt sel frá Þorbjarnarstöðum.

14 Rauðamelsrétt - undir kletti í réttinni

Skammt vestan við Rauðamelskletta er víð hraunsprunga, gróin í botninn. Í henni er heilleg há fyrirhleðsla. Þarna hefur annað hvort verið nátthagi eða gerði. Skammt suðaustan sprungunnar er fallegt, nokkuð stórt skjól með op mót norðvestri. Skammt suður þaðan í Brunabrúninni var Þorbjarnarstaðarétt eða vorréttin, einnig nefnd Rauðamelsrétt, þótt hún væri drjúgan spöl frá melnum. Í réttinni eru tveir dilkar auk almennings.

15 Gvendarbrunnur - við brunninn

Gvendarbrunnur er á mörkum landa Straums og Óttarsstaða við Alfaraleið, hina gömlu þjóðleið milli innnesja og útnesja. Líklega hefur brunnurinn verið klappaður í slétta hraunhelluna vegna þess að þar er ekkert annað vatn að hafa.

16 Óttarsstaðaborg - í borginni

Óttarsstaðafjárborgin er heilleg. Hún hefur einnig verið nefnd Kristrúnarborg eftir samnefndri konu sem var Sveinsdóttir og bjó á Óttarsstöðum á seinni hluta 19. aldar. Kristrún mun hafa haft forgöngu um að láta hlaða fjárborgina um 1870 eftir að fé var skorið niður víða um land.

17 Lónakotssel - í grónu jarðsigi

Í Örnefnalýsingu fyrir Lónakot segir: „Eins og segir í landamerkjalýsingu Lónakots og Óttarsstaða, liggur landamerkjalínan úr Sjónarhól í Vörðu eða Klett austan til við Lónakotssel. Þar höfðu í seli auk Lónakotsbónda hjáleigumenn frá Óttarsstöðum. Enda eru þarna þrjár aðgreindar seljatættur. Selið liggur rétt austan við Skorás, sem af þessum ástæðum er nefndur Lónakotsselshæð.“

18 Skerseyri - neðan við barð í sjávarmöl

Malir er samnefni malarkampanna sem voru víða á milli hraunkletta við norðanverðan Hafnarfjörð. Krosseyri var við gamla hafnargarðinn en utar sjást enn Langeyramalir og Litlu-Langeyrarmalir undan Brúsastöðum. Skerseyrarmalir liggur milli Brúsastaða og Balaklappar en Skerseyri var hjáleiga og tilheyrði kirkjustaðnum Görðum sem átti þar eldiviðartak.

19 Stifnishólar - í klettaskoru

Gamli Brúsastaðabærinn nefndist upphaflega Litla-Langeyri og ofar í landinu stendur nýbýlið Brúsastaðir 2. Búið er að endurbyggja og stækka gamla bæinn við Litlu-Langeyrarmalir, en neðan hans ganga hraundrangar í sjó fram, sem sjórinn hefur brotið á síðustu áratugum. Nefnast þeir Stifnishólar og segir sagan að þar hafi verið kveðinn niður draugur um 1800.

20 Þvottaklettar - milli steina

Þvottaklettar eru í fjörunni utan við golfvöllinn í Hvaleyrarhrauni. Undan klettunum rennur tært vatn sem notað var til þvotta á meðan búið var á Hvaleyri. Meðfram fjörunni er göngustígur og þarna má sjá brimskafla berja klettana, sennilega fallegast brim á Stór Hafnarfjarðarsvæðinu.

21 Lambagjá - undir stórri hleðslu

Lambagjáin, sem reyndar er hrauntröð, er bæði löng og breið. Til marks um mikilfengleik hennar má geta þess að hún er nú friðlýst sem náttúruvætti. Áberandi mannvirki liggur þvert á Lambagjá vestarlega og er allnokkuð hátt. Þetta eru leifar af undirhleðslu fyrsta vatnsstokksins sem var lagður úr Kaldárbotnum um 1918. Vatninu var fleytt í opnum tréstokk að suðurenda Sléttuhlíðar þar sem rann það af brúninni og hripaði ofan í hraunið en kom upp í Lækjarbotnum.

22 Valaból - neðan við stóran stein í kjarri

Í Valabóli hafa Farfuglar helgað sér stað. Þar hafa þeir hlúð að gróðri, sáð grasfræi og gróðursett tré. Innan girðingarinnar er Músarhellir, gamall næturstaður gangnamanna, rjúpnaskyttna og ferðamanna fyrr á tímum. Farfuglarnir hafa sett hurð fyrir hellinn og lagfært margt þar inni, enda hafa þeir oft gist þar í hópferðum sínum.

23 Valahnúkar - ofan við stóra steina

Valahnúkar eru móbergshryggir norðan Helgafells sem líklega mynduðust við gos í sjó fyrir um 120 þúsund árum. Víða er þar úfið og efst á þeim eru drangar miklir sem sumir telja vera tröll sem þar hafi steinrunnið, en aðrir segja að séu valirnir sem hnúkarnir bera nafn sitt af.

24 Riddari - undir móbergsklettum

Riddari nefnist klettur ofarlega austan í Helgafelli en norðan hans má sjá gatklett hátt upp í hlíðinni. Riddari átti sér tvo bræður, hraunkletta við Stóra-Lambhaga sem voru mið af sjó, á suðaustanverðri Brunabrúninni skammt ofan við Straumsvík en þeir hafa verið eyðilagðir.

25 Slysadalir - í gróinni brekku

Slysadalir. Útlendur ferðamaður var að koma frá Krýsuvík á 19. öldinni, hafði farið um Hvammahraun og Fagradal að vetrarlagi. Hin leiðin var um Helluna þarna vestan af, í austanverðum hlíðum Sveifluhálsins ofan við Kleifarvatn, en það mun hafa verið óvegur og ekki fyrir hesta. Vilpur voru í dalnum og voru þær ísi lagðar. Fór svo að maðurinn missti tvo hesta sinna niður um ísinn, en mannskaði varð enginn.

26 Gvendarsel - í seli undir kletti

Gvendarsels. Gömul gata liggur frá Kaldárseli um Kúadal og Kýrskarð, upp með norðanverðri Gvendarselshæð og áfram til suðurs með henni austanverðri, um Slysadal, Leirdal og Fagradal. Selið er vestan í hæðinni, undir háum klettavegg þar sem hann er hæstur. Klettur slútir þar fram og myndar þak á eina tóftina. Önnur tóft er skammt ofar undir veggnum. Á bak við og inn á milli er skarð í klettana og er hleðsla í enda þess. Vestan við selið er hlaðinn stekkur að hluta.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband