Færsluflokkur: Ratleikur

24 Óttarsstaðaselsrétt

Suður af Óttarsstaðaseli er stór hraun­bás og þar er ævagömul rétt eða nátthagi sem tilheyrði selinu. Réttin er allrúmgóð og stendur á klöpp en réttarveggirnir eru hlaðnir frá hvorum kersbarmi fyrir sig. Hlið hefur verið fyrir réttaropinu en það fúnaði og varð að engu.

25 Óttarstaðaselshellar

Fjárskútar eru við flest selin í Almenningi og fyrir bragðið þurfti ekki að byggja þar beitarhús. Vestan Óttarsstaðasels er hraunhryggur og í honum er ágætur fjárskúti sem rúmaði fjölda fjár. Annar skúti er suður af selinu og átti hvor Óttarsstaðabóndi sinn fjárskúta þegar þar var tvíbýlt.

26 Fjallgrensbalar

Nokkuð sunnan frá Fjallgrensbalavörðu er hlaðið skotbyrgi þar sem refaskyttur gátu legið fyrir bráð sinni. Fjallgrenið er nærri byrginu og þegar melrakkinn kom út úr greninu til að afla matar fyrir hungraða yrðlinga sína var skyttan í góðri aðstöðu til að vinna dýrið og hreinsa grenið.  

27 Búðarvatnsstæði

Búðarvatnsstæðið virðist vera mótað af manna höndum og þar er staðið regnvatn sem er varla drykkjarhæft nema í hallæri. Um mitt vatnsstæðið liggur hleðsla sauðfjárveikivarnagirðingar sem markaði landaskil milli Óttarsstaða og Hvassahrauns, og þar með á milli Hafnarfjarðar og Voga.  Vatnsstæðið er rétt undir háum hraunkanti.

Horfin merki

Þrjú ratleiksmerki við sjávarsíðuna næst bænum hafa verið fjarlægð, merki 18, 19 og 20. Búið er að útbúa ný merki og verða þau sett á sinn stað á morgun miðvikudag. (málningin er að þorna).

Látið endilega vita um horfin ratleiksmerki, helst við viðkomandi stað hér á síðunni eða til þjónustuvers Hafnarfjarðarbæjar.


1 Gráhella - rétt við minningarskjöld

Skógrækt hófst í Gráhelluhrauni 27. maí 1947 en þar hafði verið girt af 7 ha spilda. Ingvar Gunnarsson, þáv. formaður Skógræktarfélags Hafnarfjarðar plantaði fyrstu plöntunni og stendur sú björk ennþá og hefur þar verið settur upp minningarskjöldur. Guðmundur Þórarinsson, kennari, var duglegur að planta og hann plantaði fjölmörgum furum í Gráhelluhraunið og hefur verið settur upp minningarskjöldur á stóran stein við Guðmundarlund.

2 Trjásýnilundur - við stórt tré

Á 50 ára afmæli Skógræktarfélags Hafnarfjarðar var vígður nýr trjásýnilundur. Þessi lundur hefur stækkað til muna og geymir nú ýmsar fágætar trjáplöntur sem jafnvel finnast ekki annars staðar á landinu. Sumar hafa verið gefnar og aðrar hafa verið ræktaðar upp af fræjum fengnum á fræðsluferðum erlendis. Þar má m.a. finna baunatré.

3 Skógrækt - í stekk

Efst á Beitarhúsahálsi, á svæði Skógræktarfélagsins eru leifar af kví sem síðast var notuð frá bænum Ási en líklega áður frá Ófriðarstöðum (Jófríðarstöðum). Í kvíum voru fráfæruær mjaltaðar fram á miðja 19. öld er slíku var að mestu hætt á Reykjanesi. Kvíin er fremur lítil, en hleðslurnar sjást vel frá göngustíg um skógræktarsvæðið.

4 Bláberjahryggur - við stóran stein

Norðan Vatnslíðar og suðaustan Ásfjalls er misgengi sem nefnist Bláberjahryggur og sagt er að hryggurinn hafi verið blár af berjum á haustin. Byggðin teygir sig nú nálægt hryggnum og lúpína hylur stóran hluta hans. Væntanlegur Ofanbyggðavegur mun liggja á þessum slóðum og þar eru nú tvær háspennulínur.

5 Vatnshlíð - við vörðu

Vatnshlíð er ofan Hvaleyrarvatns, að miklu leyti vaxin lúpínu og kjarri. Þar er útsýni fagurt og verðugt að virða fyrir sér framkvæmdir vestan hennar. Fyrstu lúpínunum í landi Hafnarfjarðar var plantað í hlíðum Vatnshlíðar, norðan Hvaleyrarvatns um 1960 og þar uxu upp bláar blómabreiður sem nú má sjá víða í bæjarlandinu.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband