Færsluflokkur: Ratleikur

6 Selhraun - bak við stein austan við trönur

Fiskþurrkun á trönum er enn stunduð í hraununum snemmsumars. Nú er mest þurrkað af hausum og beinagörðum fiska sem hafa verið flakaðir en í þeim leynast enn mikil næringarefni. Í Hafnarfirði var fiskur áður þurrkaður á fiskreitum, þá að jafnaði útflattur. Á fisktrönum var fiskurinn hengdur upp og búin til skreið sem var eftirsótt, sérstaklega í ýmsum Afríkuríkjum.

7 Langholt - við vörðu

Árið 1980 var fyrstu landnemaspildunum úthlutað til skógræktarfólks, fyrst til skólanna og ýmissa hópa en síðar til einstaklinga. Margra ára vinna fór í súginn í norðanverðu Langholti nærri Selhöfða er kveikt var í sinu í vor sem breiddist hratt út. Víða er að vaxa upp fallegur skógur og eftir ákveðinn tíma láta landnemarnir spildurnar af hendi og fagna góðu verki sem komandi kynslóðir njóta góðs af.

8 Gjár - undir klettavegg við hleðslu

Gjárnar nefnist sérstætt svæði vestan Kaldársels með fjölbreytilegu hraunlandslagi sem er friðað náttúruverndarsvæði. Uppruni hraunsins er í Búrfellsgíg sem er í 1-2 km fjarlægð en það er talið vera í kringum 7200 ára gamalt. Frá gígnum rann mikil hraunbreiða niður í Hafnarfjörð og Skerjafjörð og er heildarflatarmálið er u.þ.b. 18 ferkílómetrar.

9 Kaldá - í hraunkanti

Í eldgosi, sem líklega varð á tólftu öld, rann hraunspýja með Kaldárbotnum og nam staðar neðan Kaldársels. Hraunið sem var þunnfljótandi fyllti í allar lægðir á leið sinni og storknaði án þess að í því mynduðust kólnunarsprungur og gjótur. Þegar grunnvatnsborð í Kaldárbotnum lækkar niður fyrir efri brún hraunsins hverfur Kaldá. Þegar mest er í ánni rennur hún að hraunbrúninni skammt vestan Kaldársels þar sem hún fer hindrunarlaust undir það á tveimur stöðum - og kemur aftur undan því við Straumsvík.

10 Rótarýlundur - inni í skógi

Milli Syðra- og Nyrðra Klifsholts eru nokkrar landnemaspildur í umsjá félagahópa, þ.m.t. Rótarýklúbbs Hafnarfjarðar þar sem félagar klúbbsins ásamt Innerwheel konum hafa plantað árlega í rúma tvo áratugi. Þar eru borð og bekkir til áningar og unnið er að gerð göngustíga. Nýlega var settur upp minningarsteinn í skógarlundi um látna félaga.

11 Ker - í skúta milli kerja

Kerin eru falleg náttúrufyrirbæri, hluti af gígaröð. Hægt er að ganga niður í nyrðri gíginn og um gat upp í þann syðri. Hann er kjörinn áningastaður, enda skjólgóður með afbrigðum. Ofan við barma hans vex ein stærsta villta birkihrísla á Reykjanesskaganum, um 5-6 m há. Hið ágætasta útsýni var frá Kerunum suðvestur að Keili og Grænudyngju með Fjallið eina í forgrunni.

12 Stórhöfðastígur - á kletti

Stórhöfðastígur liggur frá suðurhorni Stórhöfða, með norðanverðum hraunkanti Óbrinnishólabruna og til suðurs í gegnum Selhraun og áleiðis upp í Almenninga austan við Brundtorfur. Þaðan virðist stígurinn óljós en með gaumgæfni má vel lesa sig eftir honum að Hraunhól norðan Fjallsins eina.

13 Gjásel - á grónu svæði

Gjásel er við svonefndar Gjár. Stekkur er norðan undir hraunhól sem selið stendur á og vatnsstæðið er í grónum hólnum vestan við seltóftirnar. Líklega er þetta fornt sel frá Þorbjarnarstöðum.

14 Rauðamelsrétt - undir kletti í réttinni

Skammt vestan við Rauðamelskletta er víð hraunsprunga, gróin í botninn. Í henni er heilleg há fyrirhleðsla. Þarna hefur annað hvort verið nátthagi eða gerði. Skammt suðaustan sprungunnar er fallegt, nokkuð stórt skjól með op mót norðvestri. Skammt suður þaðan í Brunabrúninni var Þorbjarnarstaðarétt eða vorréttin, einnig nefnd Rauðamelsrétt, þótt hún væri drjúgan spöl frá melnum. Í réttinni eru tveir dilkar auk almennings.

15 Gvendarbrunnur - við brunninn

Gvendarbrunnur er á mörkum landa Straums og Óttarsstaða við Alfaraleið, hina gömlu þjóðleið milli innnesja og útnesja. Líklega hefur brunnurinn verið klappaður í slétta hraunhelluna vegna þess að þar er ekkert annað vatn að hafa.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband