Færsluflokkur: Ratleikur

16 Óttarsstaðaborg - í borginni

Óttarsstaðafjárborgin er heilleg. Hún hefur einnig verið nefnd Kristrúnarborg eftir samnefndri konu sem var Sveinsdóttir og bjó á Óttarsstöðum á seinni hluta 19. aldar. Kristrún mun hafa haft forgöngu um að láta hlaða fjárborgina um 1870 eftir að fé var skorið niður víða um land.

17 Lónakotssel - í grónu jarðsigi

Í Örnefnalýsingu fyrir Lónakot segir: „Eins og segir í landamerkjalýsingu Lónakots og Óttarsstaða, liggur landamerkjalínan úr Sjónarhól í Vörðu eða Klett austan til við Lónakotssel. Þar höfðu í seli auk Lónakotsbónda hjáleigumenn frá Óttarsstöðum. Enda eru þarna þrjár aðgreindar seljatættur. Selið liggur rétt austan við Skorás, sem af þessum ástæðum er nefndur Lónakotsselshæð.“

18 Skerseyri - neðan við barð í sjávarmöl

Malir er samnefni malarkampanna sem voru víða á milli hraunkletta við norðanverðan Hafnarfjörð. Krosseyri var við gamla hafnargarðinn en utar sjást enn Langeyramalir og Litlu-Langeyrarmalir undan Brúsastöðum. Skerseyrarmalir liggur milli Brúsastaða og Balaklappar en Skerseyri var hjáleiga og tilheyrði kirkjustaðnum Görðum sem átti þar eldiviðartak.

19 Stifnishólar - í klettaskoru

Gamli Brúsastaðabærinn nefndist upphaflega Litla-Langeyri og ofar í landinu stendur nýbýlið Brúsastaðir 2. Búið er að endurbyggja og stækka gamla bæinn við Litlu-Langeyrarmalir, en neðan hans ganga hraundrangar í sjó fram, sem sjórinn hefur brotið á síðustu áratugum. Nefnast þeir Stifnishólar og segir sagan að þar hafi verið kveðinn niður draugur um 1800.

20 Þvottaklettar - milli steina

Þvottaklettar eru í fjörunni utan við golfvöllinn í Hvaleyrarhrauni. Undan klettunum rennur tært vatn sem notað var til þvotta á meðan búið var á Hvaleyri. Meðfram fjörunni er göngustígur og þarna má sjá brimskafla berja klettana, sennilega fallegast brim á Stór Hafnarfjarðarsvæðinu.

21 Lambagjá - undir stórri hleðslu

Lambagjáin, sem reyndar er hrauntröð, er bæði löng og breið. Til marks um mikilfengleik hennar má geta þess að hún er nú friðlýst sem náttúruvætti. Áberandi mannvirki liggur þvert á Lambagjá vestarlega og er allnokkuð hátt. Þetta eru leifar af undirhleðslu fyrsta vatnsstokksins sem var lagður úr Kaldárbotnum um 1918. Vatninu var fleytt í opnum tréstokk að suðurenda Sléttuhlíðar þar sem rann það af brúninni og hripaði ofan í hraunið en kom upp í Lækjarbotnum.

22 Valaból - neðan við stóran stein í kjarri

Í Valabóli hafa Farfuglar helgað sér stað. Þar hafa þeir hlúð að gróðri, sáð grasfræi og gróðursett tré. Innan girðingarinnar er Músarhellir, gamall næturstaður gangnamanna, rjúpnaskyttna og ferðamanna fyrr á tímum. Farfuglarnir hafa sett hurð fyrir hellinn og lagfært margt þar inni, enda hafa þeir oft gist þar í hópferðum sínum.

23 Valahnúkar - ofan við stóra steina

Valahnúkar eru móbergshryggir norðan Helgafells sem líklega mynduðust við gos í sjó fyrir um 120 þúsund árum. Víða er þar úfið og efst á þeim eru drangar miklir sem sumir telja vera tröll sem þar hafi steinrunnið, en aðrir segja að séu valirnir sem hnúkarnir bera nafn sitt af.

24 Riddari - undir móbergsklettum

Riddari nefnist klettur ofarlega austan í Helgafelli en norðan hans má sjá gatklett hátt upp í hlíðinni. Riddari átti sér tvo bræður, hraunkletta við Stóra-Lambhaga sem voru mið af sjó, á suðaustanverðri Brunabrúninni skammt ofan við Straumsvík en þeir hafa verið eyðilagðir.

25 Slysadalir - í gróinni brekku

Slysadalir. Útlendur ferðamaður var að koma frá Krýsuvík á 19. öldinni, hafði farið um Hvammahraun og Fagradal að vetrarlagi. Hin leiðin var um Helluna þarna vestan af, í austanverðum hlíðum Sveifluhálsins ofan við Kleifarvatn, en það mun hafa verið óvegur og ekki fyrir hesta. Vilpur voru í dalnum og voru þær ísi lagðar. Fór svo að maðurinn missti tvo hesta sinna niður um ísinn, en mannskaði varð enginn.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband