Færsluflokkur: Léttfeti

3. Gjárnar

Gjárnar eru leifar tæmdrar hrauntjarnar sem myndaðist fyrir u.þ.b. 7000 árum þegar Búrfellsgosi var að ljúka. Sjóðandi heit hrauneðjan kraumaði um stund í tjörninni áður en hraunflaumurinn rann eftir neðanjarðarrásum í átt til sjávar og tjarnarbotninn storknaði. Gjárnar voru friðlýstar sem náttúruvætti árið 2009

4. Misgengi

Sunnan við Fremstahöfða í Höfðalandi er lítilsháttar misgengisbrún sem myndaðis fyrir löngu í skjálftahrinu og stendur vestari hlutinn hærra í landinu. Misgengið virðist vera frekar stutt vegna þess að hraun hefur runnið að mestu yfir það. Hægt er að greina framhald misgengisins í austanverðri Setbergshlíð. 

5. Kornstangarhraun

Stórhöfðahraun var fyrrum nefnt Kornstangarhraun. Nafnið gefut til kynna að melgresi hafi vaxið umhverfis Stórhöfða í eina tíð. Fátt var fallegra þegar líða tók að hausti en bylgjandi kornstöng sem þótti góð til fóðurs fyrir stórgripi. Þetta er tiltölulega slétt helluhraun en skammt undan er ógreiðfærara brunahraun.  

6. Hraunamörk

Mörk Kaldárhrauns og Óbrinnishólabruna. Gosið hefur tvisvar í Óbrinnishólum en seinna gosið, sem varð um 190 f. Kr., myndaði úfið apalhraun. Kaldárhraun er friðað en það varð til við gos Tvíbollagíg á 10. öld. Þriðja hraunið kom úr Gvendarselsgígum á seinni hluta 12. aldar. Þarna sést ágætlega hversu ólík hellu- og apalhraun eru.

7. Hrafnagjá

Smyrlabúðarhraun fær nafn sitt af grágrýtisklettinum Smyrlabúð en hraunflákinn er hluti af Búrfellshrauni sem spannar alls 18 km2. Smyrlabúðahraun er greinilega tengt Svínahrauni en virðist vera algjörlega úr samhengi við Búrfellsgíg vegna misgengisins sem Búrfellsgjá og Lambagjá tilheyra. Hrafnagjá nefnist hraunsprungan í suðausturhluta Smyrlabúðarhrauns.

8. Hjallamisgengi

Hjallar er um 5 km langur misgengisstallur sem nær frá suðausturhluta Vífilsstaðahlíðar langleiðina norðaustur að Elliðavatni. Norðurbrúnin er allbrött og allt að 60 m þar sem hún er hæst. Grágrýtisklettar mynda efri brún en neðan þeirra eru grýttar brekkur og neðan þeirra ber mest á dalverpinu Hjallaflötum.

9. Húsfellsgjá

Húsfellsgjá: Húsfellsgjá er á sömu sprungurein og Gullskistugjá. Misgengið er sýnilegt í suðausturhluta Valahnúka og Helgafells. Húsfell er umlukið hraunum og er Húsfellsbruni sem rann á 10. öld umfangsmikið og úfið apalhraun.

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband