Færsluflokkur: Léttfeti

2 Skátahellir - syðri - í Urriðavatnshrauni

Skátahellir syðri er hraunrás er tekið hefur við nokkru af hraunrennsli hrauntraðar (Selgjá) Búrfellshrauns til norðurs. Hleðslur eru fyrir hellismunnanum sem næstur er hrauntröðinni. Heildarlengd hellisins er 237 metrar og dýptin er um 11 metrar. Hellirinn er víða manngengur og í honum áhugaverðar hraunmyndanir.

3 Suðurhellir - fjárhellir í Urriðavatnshrauni

Suðurhellir er fjárskjól í grónu jarðfalli. Óljósar hleðslur eru við munnann. Skammt austar eru hleðslur við op Norðurhellis, einnig nefndur Þorsteinshellir í heimildum. Opið er á gangi niður í tvískiptan helli. Gangurinn er hlaðinn. Vinstra megin eru fjárhellir og er hægt að fara í gegnum þá og upp vestar. Hægra megin er nokkurs konar viðverustaður. Norðaustar er enn eitt fjárskjólið í helli yst í Selgjá (Norðurhellragjá), Norðurhellragjárhellir. Í gjánni eru gamlar selstöðuminjar frá 11 bæjum í Garðahverfi.

4 Selgjárhellir-syðri - fjárhellir

Í Selgjá eru tvö fjárskjól; Selgjárhellir syðri og Selgjárhellir nyrðri. Í báðum hellunum eru hleðslur og framan við þá eru minjar eftir selstöður. Selfarir tíðkuðust frá landnámi fram til loka 19. aldar. Í Selgjánni eru ummerki eftir fjársel. Fé var að jafnaði haft í selinu 10 vikur árlega, frá 6. – 16. viku sumars.
Á Reykjanesskaganum má enn sjá leifar a.m.k. 290 selstöðva af ólíkum gerðum og frá ýmsum tímum. Í þeim eru venjulega hús með þremur rýmum; baðstofa, búr og eldhús, stekkur, varða, stígur, kví og vatnsból.

5 Ketshellir í Sléttuhlíð

Um er að ræða fjárskjól í fyrrum selstöðu Setbergs (að norðanverðu) og Hamarskots. Hann er opinn í báða enda með fyrirhleðslum og nefnist syðri hlutinn Selhellir en nyrðri hlutinn var nefndur Kethellir skv. Jarðarbók Árna Magnússonar og Bjarna Vídalín 1703. Hleðsla er í miðjum hellinum. Mun áður fyrr hafa náð upp í loft, en nú er efri hluti hennar fallin að stórum hluta. Skammt ofar, við gömlu Selvogsgötuna, er Kershellir. Inn af honum er svo Hvatshellir.

6 Kaldárselshellar - fjárhellar Kaldársels

Kaldárselsfjárhellar eru skammt vestan Kaldárselsvegar þar sem hann beygir til vesturs áleiðis að Borgarstandi. Um er að ræða a.m.k. þrjá slíka hella með ummerkjum sem og leifar þriggja húsa. Ummerki eru og eftir heykuml, miðsvæðis, og í nyrsta fjárskjólinu er hlaðinn miðgarður. Syðsta fjárskjólið er stærst og aðgengilegast. Opið hafði fallið saman en göngufólk FERLIRs gerði inngönguna aðgengilega að nýju árið 2007.
Árin 1906-1908 fékk Kristmundur Þorláksson Kaldársel til afnota, síðar stórbóndi í Stakkavík. Hann kom upp smáheyhlöðu í Kaldárseli fyrir 50 kindur með því að byggja yfir hina gömlu baðstofutótt, sem þá stóð enn ófallinn. Þá byggði hann þar lambahús. Kristmundur lá við í Hafnarfirði, en fór fótgangandi um veturinn beitarhúsaveginn í Kaldársel í myrkri kvölds og morgna. Ærnar hafði hann við þessa gömlu hella. Lömbin voru í húsi, en músin vildi leggjast á þau. Kristmundur flutti loks fé sitt í Hvassahraun.

7 Kaðalhellir við Kaldársel

Kaðalhellir er skammt norðvestan við Kaldársel. Börnin í sumarbúðum KFUM og-K leika sér jafnan í hellinum. Kaðalhellir er í háum hraunkanti. Hann er í rauninni hluti af Gjánum svonefndu norðnorðvestan Kaldársels. Í þeim eru hrauntraðir og ná þær út fyrir Gjárnar. Kaðalhellir er að hluta til bæði opin og lokuð hraunrás og að hluta til sprunga í hraunjaðrinum. Hann er tvískiptur. Efri hlutinn er á tveimur hæðum. Til að komast upp í efri hluta rásarinnar þarf aðstoð kaðals.
Hún nær spölkorn inn undir hraunið, en mesta rýmið er fremst. Neðri hluti rásarinnar er greinilega safnþró frá efri hlutanum. Skammt vestan við rásina er hægt að fara niður um sprungu. Þá er komið niður í helli, að jafnaði með jökulgólfi allan ársins hring. Vatnsdropar úr loftinu hafa holað klakann og mynda sérstakt mynstur.


8 Níutíumetrahellir við Helgadal

Níutíumetrahellir er við gönguleiðina frá Kaldárseli (bílastæðinu við Kaldá/vatnsverndargirðinguna) til norðausturs áleiðis að Helgadal. Þótt opið gefi ekki til kynna að þarna sé langur hellir er hann nú samt sem áður eins langur og nafnið gefur til kynna. Fyrst er komið niður í nokkurs konar lágan forsal, sem þrengist síðan smám saman uns fara þarf niður á fjóra fætur. Mold er á botninum svo auðvelt er að feta sig áfram inn eftir hellinum.
Eftir spölkorn víkkar hann á ný, en þó aldrei verulega. Svo virðist sem hellirinn beygi í áttina að Lambagjá (friðlýst), sem er þarna norðvestan við opið. Sennilega er þessi rás ein af nokkrum, sem runnið hafa í gjána á sínum tíma og myndað þá miklu hraunelfur er runnið hefur niður hana til norðvesturs og síðan áfram til vesturs í átt að Kaldárseli.

9 Fosshellir í Helgadal

Fosshellir er innan við jarðfall í sömu hraunrás og Rauðshellir og Hundrað -metrahellir milli Helgadals og Búrfellsgýgs, spölkorn ofar (austar).
Um tíma var Rauðshellir nefndur Pólverjahellir, að sögn eftir pólskri áhöfn báts, sem dvaldist um tíma í Hafnarfjarðarhöfn, en fengu ekki inni í bænum. Nafnið mun hinsvegar vera komið vegna þess að börnin í Pólunum í Reykjavík fóru þangað í sumarferðir og höfðu gaman af.
Önnur heimfærð sögn um tilurð nafnsins er sú að skipshöfn af pólsku skipi í Hafnarfirði hafi gist í hellinum vegna þess að enga slíka var þá að fá í Hafnarfirði. Það ku vera tómur tilbúningur.


1. Bláberjahryggur

Bláberjahryggur er misgengisprunga sem liggur um Bleiksteinsháls milli Kaldárselsvegar og Hamraness. Norðvestur barmurinn er hærri og misgengið er mest um 3-4 metrar. Jarðskorpan hefur rifnað í sundur áður en Búrfellshraun rann og sést misgengið greinilega norðaustan Gráhelluhrauns þar sem það markar skilin milli Flóðahjalla og Setbergshlíðar.

2. Norður Gjár

Nyrstu hlutar Gjánna eru skammt suður af Sléttuhlíð þar sem hraunið skiptist í jarðföll, hella og lágreista hraunstalla. Barrtjrám og öðrum skógarplöntum hefur verið plantað í Norður-Gjárhraun þ.m.t. í nyrstu hraunrásina en um hana lá áður fyrr greiðfær leið milli Kaldársels og Sléttuhlíðarhorns.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband