Færsluflokkur: Léttfeti

1 Útihús v/ Ástjörn

Upp og austur frá bænum Ási rís upp fjall, sem heitir Ásfjall. Það er raunverulega framhald af Hvaleyrarholti, (er fyrr getur). Á Ásfjalli er varða, sem heitir Ásvarða. Bærinn Ás stendur í brekku vestan undir fjallinu. Vestur frá bænum er tjörn í lægð, sem heitir Ástjörn. Norður frá henni er býli, sem heitir Stekkur. Þar mun hinn gamli stekkur frá Ási hafa verið. Þótt bærinn Ás hafi verið rifinn má enn sjá margar minjar húsa og annarra búsetuleifa.

2 Ingvarslundur

Í Undirhlíðum er minnisvarði um fyrsta formann Skógræktarfélagsins, Ingvar Gunnarsson. Sumarið 1930 plantaði Ingvar fyrstu barrtrjánum þarna ofarlega í Litla-Skógarhvammi, kjarri vöxnum unaðsreit í Undirhlíðum. Vorið 1934 var hvammurinn girtur og skólabörn og drengir í Vinnuskólanum í Krýsuvík bættust síðar í hóp trjáræktenda. Lundurinn hefur einnig verið nefndur Skólalundur.

3 Höfðaskógur

Starfsstöð Skógræktarfélags Hafnarfjarðar er í svonefndum Höfðaskógi. Félagsaðstaða og ræktunarstöð félagsins er á Beitarhúsahálsi sem dregur nafn sitt af Jófríðarstaðaseli sem varð að beitarhúsi þegar selfarir lögðust af. Þar sem selið stóð eru nú tóftir beitarhúss sem var sennilega byggt rétt fyrir aldamótin 1900. Höfðinn suðaustan við Beitarhúsaháls er sennilega nefndur eftir beitarhúsinu, en eldra nafn á höfðanum er Heimastihöfði. Nokkrir höfðar til viðbótar falla undir Höfðaland. Höfðarnir heita auk Húshöfða, Selhöfði, Stórhöfði, Miðhöfði og Efstihöfði sem var allt eins nefndur Fremstihöfði. Einn höfði til viðbótar var tilgreindur í gömlum skjölum og nefndur Þormóðshöfði. Hann heitir í dag einu nafni Langholt enda frekar um holt eða ás að ræða en eiginlegan höfða.

4 Skátalundur

Skátaskálinn var byggður árið 1968 og landið girt og uppgræðsla hófst 1973. Trjágróður hefur vaxið þar hratt undanfarin ár og er nú hluti af útivistarperlunni við Hvaleyrarvatn. Inni í greniskógi vestan við skálann má finna leifar af birkikjarri fyrri tíma.

5 Rétt nálægt Stórhöfða

Í örnefnalýsingu Ara Gíslasonar um Hvaleyri segir m.a.: „Selhöfði eða Hvaleyrarselhöfði er sunnan við Hvaleyrarvatn, en það er allt í Áslandi. Sunnan undir höfðanum eru miklar rústir eftir Hvaleyrarsel. Vestan við Selhöfðann er svo alldjúpur dalur, sem heitir Seldalur, sem að vestan myndast af hæstu hæðinni á þessum slóðum, sem heitir Stórhöfði. Hraunið milli Hamraness og Stórhöfða og frá Hvaleyrarvatni að austan og vestur á brún, þar sem landið hækkar, heitir Selhraun. Niðri í því er réttarhleðsla.

6 Bruni

Efri hluti Nýjahrauns er nefndur Bruni, og nær það nokkuð suður á móts við Stórhöfða. Sunnan og neðan við Stórhöfða er hraunið nefnt Stórhöfðahraun. Upp að  Brunanum vestan Stórhöfða heitir hraunið Selhraun. Kapelluhraun, en svo nefnist neðsti hluti Nýjahrauns, var í daglegu tali fólks í Hraunum einnig nefndur Bruninn og enn ofar Háibruni. Talsvert var um mosatekju í Kapelluhrauni.

7 Gráhelluhraun

Fyrsta verk stjórnar eftir stofnun Skógræktarfélags Hafnarfjarðar, sem var stofnað haustið, 1946 var að útvega hentugt land til skógræktar. Upphaflega hugmyndin var að hefja trjárækt í örfoka brekkunum norðan Hvaleyrarvatns, en vegna kulda vorið 1947 var leitað að skjólsælla svæði. Forvígismenn félagsins töldu nyrsta hluta Gráhelluhrauns henta vel til ræktunar og fengu leyfi bæjaryfirvalda til að girða 7 hektara reit í hrauninu upp af Lækjarbotnum. Gróðursetning hófst við hátíðlega athöfn 27. maí 1947 og fyrsta sumarið voru 2.300 trjáplöntur settar niður. Næsta áratug var aðal starfsemi félagsins tengd skógrækt í Gráhelluhrauni.

8 Klifsholt

Sléttuhlíð og hluti Gráhelluhrauns tilheyrðu áður fyrr upplandi Hamarskots, sem var ein af hjáleigum kirkjustaðarins í Görðum. Sumarið 1945 fékk Jón Magnússon í Skuld úthlutað landi við syðsta Klifsholt. Hann reisti þar bústað sinn sem hann nefndi Smalaskála og hóf mikið ræktunarstarf. Landið sem Jón fékk til afnota var nánast örfoka hvammur sem stendur nokkru sunnar og ofar í landinu en bústaðirnir í Sléttuhlíð. Í auglýsingu um Reykjanesfólkvang segir m.a. um mörkin: „Lína dregin.. á mörkum Garðahrepps og Hafnarfjarðar við Kershelli. Þaðan eftir þeim mörkum inn fyrir sumarbústaðahverfi í Sléttuhlíð á hæð er Klifsholt heitir, þaðan beint í Steinshús, sem er glöggt og gamalt eyktamark.“ Frá Klifsholti er einstaklega falleg fjallasýn, allt frá Vífilsfelli í norðaustri og að Fagradalsfjalli í suðvestri.

9 Valaból

Í Valabóli var gangnamannahellir fyrrum, sem leitarmenn notuðu áður fyrr. Hann heitir Músarhellir, en er í daglegu tali nefndur Valaból eftir að Farfuglar lagfærðu hellinn um 1940 og tóku svæðið umhverfis hann til ræktunar. Þar hafa þeir hlúð að gróðri, sáð grasfræi og gróðursett tré.  Músarhellir hefur auk þess í gegnum tíðina verið næturstaður rjúpnaskyttna og ferðamanna. Farfuglarnir settu hurð fyrir hellinn og lagfærðu margt þar inni, enda gistu þeir þar oft í hópferðum sínum.

1 Skátahellir - nyrðri - í Urriðavatnshrauni

Um er að ræða „lítinn skúta með fallegum hellismunna“, eins og segir í stórvirkinu „Íslenskir hellar“. Merki Ratleiksins er við opið, en frekari landvinningar verður að vera undir hverjum og einum komið. Betra er þó að hafa góð ljós meðferðis og fara varlega.

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband